Njarðvík hefur samið við Nacho Martin um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Subway deild karla.
Nacho er 205 cm, 39 ára spænskur framherji/miðherji, en hann kemur frá CB Cornella sem leikur í spænsku 3. deildinni. Síðustu tvö tímabil á undan lék hann í næst efstu deild en lengi vel átti hann farsælan feril í efstu deild. Þá er hann í landsliði Spánar í 3 á 3 körfubolta.
„Ég er ánægður með að hafa landað Nacho þar sem markaðurinn þegar kemur að bosman-leikmönnum er mjög erfiður. Hann tikkar í þau box sem við viljum en hann getur spilað með bakið í körfuna, skotið og frákastað. Það er mikilvægt að hann sé bæði í formi og leikæfingu. Þá fær hann frábær meðmæli sem karakter og það er ekki síður mikilvægt en getan inni á vellinum. Við höfum lagt áherslu á að vera með lið sem spilar liðskörfubolta og því erum við alltaf að leita af leikmönnum sem hafa háa körfuboltagreind, sem kemur oftast með reynslunni,“ sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari í samtali við miðil félagsins