Njarðvík lagði Keflavík í spennandi grannaslag í lokaumferð Subwaydeildarinnar í kvöld. Lokatölur 79-82. Það var Nacho Martin sem reyndist hetja leiksins með þrist á ögurstundu sem reyndust sigurstigin í kvöld. Eftir kvöldið er ljóst að Njarðvík mætir Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og Keflavík mætir Tindastól.
Eric Ayala var fjarri góðu gamni í kvöld í liði Keflavíkur vegna meiðsla en herforingi þeirra í Keflavík, Hörður Axel Vilhjálmsson, var mættur aftur til leiks eftir fingurbrot.
Hörður Axel Vilhjálmsson var fljótur að setja mark sitt á leikinn eftir meiðslafjarveruna en hann skoraði fyrstu stig Keflavíkur í leiknum með þriggja stiga körfu. Fyrsti leikhluti fór fjörlega af stað þar sem Njarðvíkingar létu sér lynda að skjóta meira fyrir utan en það skilaði þeirri niðurstöðu að gestirnir leiddu 20-22 eftir að Maciej Baginski lokaði leikhlutanum með þrist fyrir gestina. Opið og fjörugt, nokkrir hressilegir pústrar og því lofuðu fyrstu tíu mínúturnar góðu fyrir það sem koma skyldi.
Annar leikhluti var jafn og spennandi, aðeins þéttari varnir báðu megin og áfram hart barist. Halldór Garðar Hermannsson var að finna sig vel í liði Keflvíkinga og kom heimamönnum í 41-38 með villu og körfu þegar tæpar þrjár sekúndur voru til hálfleiks og þar við sat í þeim fyrri. Halldór Garðar beittur með 11 stig en Dedrick 9 hjá Njarðvík.
Milka fékk tvær villur í röð snemma í þriðja leikhluta og var kominn í fjórar villur hann hélt á tréverkið en átti eftir að láta vel til sín taka nokkru síðar. Njarðvíkingar tóku á rás í fjarveru Milka og komust í 44-52 en heimamenn voru ekki af baki dottnir. Keflvíkingar náðu flottum takti í varnarleik sinn og tóku 13-3 sprett og leiddu því 57-53 eftir þrjá leikhluta. Flottur viðsnúningur Keflvíkinga í leikhlutanum þar sem Okeke var að binda vel saman varnarleik heimamann.
Ólafur Ingi átti flottar rispur fyrir Keflavík í fjórða leikhluta og heimamenn komust í 62-53. Þá var komið að Njarðvíkingum að taka áhlaup og það gekk þegar Nacho Martin fór að hitta en hann hafði afar hægt um sig framan af leik.
Nacho Martin skoraði loks þrist í sinni fimmtu tilraun þegar hann minnkaði muninn í l67-65 en þá kom Milka aftur til leiks og var að skora körfur á alla kanta og kom Keflavík í 74-68.
Nico Richotti færði Njarðvík svo nærri 75-73 með þrist og liðin voru svo jöfn 77-77 og 79-79 og lykt af framlengingu komin í loftið þegar Nacho Martin fékk opinn þrist og nelgdi honum niður með 3 sekúndur eftir af leiknum. Keflavík náði ekki að jafna metin og koma leiknum í framlengingu og Njarðvíkingar fögnuðu sigri.
Davíð Tómas Tómasson dómari sendi svo Hörð Axel Vilhjálmsson beint út úr húsi þegar leiktíma var lokið og að því er virtist fyrir mótmæli. Dómur sem gæti dregið verulegan dilk á eftir sér en eins og Hjalti þjálfari Keflavíkur sagði í viðtali eftir leik þá vonast líklegast flestir til þess að stigið verði verlega til jarðar þegar kemur að fyrirtöku í þessu máli.
Lokatölur 79-82 og þá er ljóst að Njarðvík mætir Grindavík í 8-liða úrslitum og Keflavík mætir Tindastól.