spot_img
HomeFréttirMyndir: Bikarhelgi yngri flokka heppnaðist vel

Myndir: Bikarhelgi yngri flokka heppnaðist vel

{mosimage}

Bikarhelgi yngri flokkanna fór að þessu sinni fram í DHL – höllinni í vesturbænum og þar urðu KR – ingar einir liða til þess að eiga tvo bikarmeistara. Einnig urðu óvænt úrslit í 11. flokki karla þar sem Njarðvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik í langan tíma og endi bundinn á eina lengstu sigurgöngu íslenskrar körfuboltasögu. Mótið lukkaðist vel og var umgjörðin hjá KR – ingum til mikillar fyrirmyndar.

Umfjöllunum um leikina af www.kki.is

Gestgjafar KR eignuðust fyrstu bikarmeistarana þegar 10. flokkur karla hjá félaginu vann Breiðablik, 47-37, í fyrsta úrslitaleik dagsins (laugardag). Blikar stóðu vel í KR-liðinu framan af leik en góður sprettur KR-inga í lok fyrri hálfleiks breytti stöðunni úr 15-17 fyrir Blika í 30-19 fyrir KR sem var staðan í hálfleik. Í seinni hálfleik náðu KR-ingar mest 17 stiga forskoti en Blikar löguðu stöðuna í lokin. Snorri Páll Sigurðsson hjá KR var valinn maður leiksins en hann var með 12 stig, 13 fráköst og 9 stolna bolta. Davíð Birgisson var með 14 stig og 5 stoðsendingar hjá KR og Baldur Þór Ragnarsson skoraði 11 stig og stal 5 boltum. Hjá Blikum átti Hjörtur Halldórsson mjög góðan leik en hann var með 16 stig, 13 fráköst og 11 fiskaðar villur.

{mosimage}

10. flokkur kvenna hjá Grindavík vann bikarmeistaratitilinn í sínum flokki eftir 53 stiga sigur á Hrunamönnum, 82-29. Grindavík hafði 31 stigs forskot í hálfleik, 48-19, og höfðu mikla yfirburði í þessum leik. Alma Rut Garðarsdóttir hjá Grindavík var valin maður leiksins en hún setti á svið skotsýningu í leiknum, skoraði 37 stig á 27 mínútum og hitti úr 15 af 20 skotum sínum (75%) þar 4 af 6 þriggja stiga skotum. Lilja Ósk Sigmarsdóttir var einnig mjög traust með 19 stig, 11 fráköst, 8 stolna bolta og 5 stoðsendingar og Ingibjörg Jakobsdóttir skoraði 16 stig, gaf 6 stoðsendingar og stal 5 boltum. Hjá Hrunamönnum var Dóra Þrándardóttir atkvæðamest með 12 stig og 6 fráköst.

{mosimage}

Fjölnir vann einnig öruggan sigur í 9. flokki karla en þeir unnu Snæfelli með 28 stigum, 72-44. Snæfell skoraði 5 fyrstu stigin í leiknum en Fjölnir svaraði með 25-6 spretti og var með 14 stiga forskot í hálfleik, 39-25. Fjölnir skoraði síðan fyrstu 8 stig seinni hálfleiks og eftir það var aldrei spurning um hvernig leikurinn færi. Haukur Pálsson sem er enn í 8. flokki var maður leiksins en hann kom inn af bekknum með 25 stig, 7 fráköst, 6 stolna bolta og 3 varin skot á aðeins 18 mínútum. Haukur nýtti 11 af 16 skotum sínum og Fjölnir vann leikinn, 48-17, meðan hann var inná. Arnþór Guðmundsson var með 15 stig fyrir Fjölni og þá var Ægir Þór Steinarsson með 10 stoðsendingar auk 6 stiga og 6 stolna bolta. Hjá Snæfelli skoraði Kristján Andrésson 19 stig og Egill Egilsson var með 8 stig, 19 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 varin skot.

{mosimage}

FSu vann sinn fyrsta titil þegar Unglingaflokkur karla hjá félaginu vann sjö stiga sigur á heimamönnum í KR, 83-90, í hörkuleik. KR – ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með 9 stigum í hálfleik, 47-38. KR – liðið hafði síðan frumkvæðið allt þar til að Ragnar Gylfason tók sig til og setti niður þrjá þrista í röð og breytti stöðunni úr 68-66 fyrir KR í 68-75 fyrir FSu og lagði með því grunninn að sigrinum. Ragnar var valinn maður leiksins en hann skoraði 19 af 22 stigum sínum í seinni hálfleik þar sem að hann hitti úr 7 af 11 skotum sínum þar af 5 af 8 skota sinna fyrir utan þriggja stiga línuna. Alexander Dungal átti einnig mjög góðan leik fyrir FSU og var með 21 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar og þá var Vésteinn Sveinsson með 16 stig og 8 stoðsendingar, Hörður Hreiðarsson gerði 10 stig og náði 6 boltum og þá var Árni Ragnarsson með 6 varin skot auk 9 stiga. Hjá KR Brynjar Þór Björnsson langatkvæðamestur með 41 stig, 10 fiskaðar villur, 9 fráköst og 4 stoðsendingar.

{mosimage}

Fyrsti úrslitaleikur sunnudagsins var æsispennandi leikur í 9. flokki kvenna þar sem Njarðvík varð bikarmeistari eftir eins stigs sigur á Haukum, 38-37. Það var maður leiksins, Dagmar Traustadóttir hjá Njarðvík sem tryggði sínu liði sigurinn á vítalínunni en Dagmar var með þrefalda tvennu í leiknum skoraði 18 stig, tók 10 fráköst og stal 10 boltum. Haukar náðu mest níu stiga forskot í fyrri hálfleik (15-6) og höfðu sex stiga forskot í hálfleik, 22-16. Heiða Björg Valdimarsdóttir tók 24 fráköst fyrir Njarðvík og varði auk þess 4 skot og þá var Hanna Birna Valdimarsdóttir með 6 stig og 8 fráköst og Erna Lind Teitsdóttir skoraði 6 stig og stal 5 boltum. Guðbjörg Sverrisdóttir var með 15 stig, 15 fráköst og 7 stolna bolta í liði Hauka, Heiðrún Jónsdóttir skoraði 9 stig og tók 11 fráköst og þá var Rannveig Ólafsdóttir með 19 fráköst og 2 stig.

Valur vann sögulegan sigur á Njarðvík, 66-60, í úrslitaleik 11. flokks karla en 1989-árgangurinn hjá Njarðvík hafði fyrir leikinn ekki tapað leik í fjögur ár og fjóra mánuði (11. nóvember 2001). Njarðvík hafði frumkvæðið í fyrri hálfleik, náði mest 15 stiga forustu (26-11) og var sjö stigum yfir í hálfleik, 30-23. Valsmenn komu grimmir inn í seinni hálfleikinn, skoruðu átta fyrstu stig hans og komust síðan 11 stigum yfir (58-47) eftir að hafa skorað 13 stig í röð. Valur vann leikinn með sex stigum, 66-60 en miklu munaði um fyrir Njarðvíkurliðið að Hjörtur Hrafn Einarsson lék aðeins í 21 mínútu vegna villuvandræða. Páll Fannar Helgason var valinn maður leiksins en hann stjórnaði leik Valsliðsins af mikilli röggsemi og var með 15 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst. Haraldur Valdimarsson var með 14 stig og 14 fráköst, Hjalti Friðriksson skoraði 13 stig og tók 9 fráköst og þá var Kristján Ragnars með 13 stig og 8 fráköst. Rúnar Ingi Erlingsson var atkvæðamestur hjá Njarðvík með 23 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta en Hjörtur skoraði 19 stig á þeirri 21 mínútu sem hann spilaði.

{mosimage}

Haukar unnu sannfærandi 43 stiga sigur á Grindavík, 106-63, í Unglingaflokki kvenna þar sem bæði Helena Sverrisdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir áttu frábæran leik. Saman skoruðu þær meðan annars 28 af 29 stigum Hauka í 1. leikhluta (Helena 16, Pálína 12) þar sem þær nýttu öll sjö skotin sín (Helena 7/7, Pálína 6/6). Haukar leiddu með 12 stigum eftir fyrsta leikhlutann, 29-17, höfðu 20 stiga forskot í hálfleik, 53-33 og voru síðan með 38 stiga forustu, 88-50, fyrir lokaleikhlutann. Helena endaði leikinn með 37 stig, 9 fráköst, 8 stoðsendingar og 5 stolna bolta en Pálína var með 30 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Þetta er þriðja árið í röð sem þær Helena og Pálína verða bikarmeistarar í þessum flokki og jafnframt þriðja árið í röð sem Helena er maður leiksins. Alma Rut Garðarsdóttir var atkvæðamest hjá Grindavík með 18 stig.

KR endaði vel heppnaða helgi á sigurnótunum með því að hefna úrslitanna í úrslitaleik Unglingaflokks karla. KR vann 13 stiga sigur á FSu, 73-60, í úrslitaleik drengjaflokks. KR – liðið hafði frumkvæðið allan tímann, var fimm stigum yfir eftir 1. leikhluta, 19-14, leiddi með 3 stigum í hálfleik, 40-37, og hafði 9 stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 57-48. Þetta var þriðja árið í röð sem KR vinnur bikarinn í drengjaflokki og annað árið í röð sem Brynjar Þór Björnsson er valinn maður leiksins en hann á enn eitt ár eftir í flokknum. Brynjar Þór var með 26 stig, 11 fráköst, 6 stolna bolta og 14 villur voru dæmdar á leikmenn FSu þegar þeir voru að reyna að halda aftur af honum. Fyrirliði KR – liðsins, Darri Hilmarsson var einnig mjög góður með 18 stig, 15 fráköst og 5 stoðsendingar og þá skoraði Ellert Arnarson 17 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Árni Ragnarsson var atkvæðamestur hjá FSu með 17 stig, Hörður K Nikulásson var með 12 stig og 6 fráköst og Vésteinn Sveinsson skoraði 10 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

Umfjöllun um leikina: www.kki.is

Myndir: www.vf.is – JBÓ

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -