Þór lagði Stjörnuna í gærkvöldi í annarri umferð Subway deildar karla, 80-84.
Þór hefur því unnið einn og tapað einum það sem af er móti á meðan að Stjarnan hefur tapað báðum leikjum sínum.
Lárus Jónsson þjálfari Þórs var tekinn tali eftir leik:
Lalli…ég, eins og flestir á landinu, hef verið svolítið hrifinn af Þór frá Þorlákshöfn…þið spiluðuð svo brjálæðislega skemmtilegan bolta…og gerið kannski ennþá…en mér fannst einhvern veginn vanta svolitla gleði í þetta hjá ykkur í kvöld…?
Já, menn kannski eitthvað stífir? Nýbúnir að tapa leik og stressaðir að fara að tapa tveimur í röð…það gæti vel verið að það sé eitthvað svona andlegt, við byrjuðum síðasta tímabil alveg rosalega illa svo menn gætu verið brenndir…það situr í mönnum. Ég held að það léttist aðeins brúnin á mönnum að hafa náð í sigur, rosalega mikilvægan sigur á móti bara góðu Stjörnuliði sem voru að koma með stig úr mörgum áttum, bæði Júlíus og Múli að koma með meira en 10 stig, Hlynur með 15…þannig að þó vanti einhverja leikmenn hjá þeim þá eru þeir samt greinilega með skrambi gott lið…
Jájá, varstu farinn að hugsa einhvern tímann í leiknum að fjandinn hafi það, erum við að fara að tapa hérna öðrum leiknum í röð…á móti liði sem er allt í meiðslum og allt í rugli…?
Nei alls ekki, við töluðum bara um það að fara inn í þennan leik til þess að vinna hann, ekkert að vera að pæla í því hvort við værum að fara að tapa á móti einhverju liði. En það er alveg krefjandi að spila á móti Kanervo og Ægi…Hlynur með þeim og tala ekki um þegar ungu strákarnir fara að raða á okkur! En ég held að það hafi verið varnarleikurinn í fyrsta og fjórða leikhluta sem var góður og gerði gæfumuninn…örlítið orkuleysi í öðrum leikhluta, þeir ná 39-35 stöðu og þegar við tókum leikhlé þá töluðum við um það að þeir voru að ná einhverjum 6 sóknarfráköstum í öðrum leikhluta og við vorum oft með Fotis og Jordan á móti þeim þannig að það vantaði bara orku, þetta týpíska.
Akkúrat, en eins og eðlilegt getur talist nú í blábyrjun tímabils þá á liðið eftir að spila sig betur saman, ég þykist hafa séð það á köflum hjá ykkur í kvöld…
Jájá, við erum ekkert komnir neitt rosalega langt með þetta lið þó við séum með marga sem hafa spilað með okkur áður, t.d. Raggi…
…íslenski kjarninn…
…já…og nú erum við t.d. komnir með Pruitt og erum að nota hann vel…en við erum svo komnir með Tómas í svolítið öðruvísi hlutverk, kominn í stærra hlutverk og okkar markmið er náttúrulega að stækka hann…
…mér fannst hann kannski finna aðeins fyrir því í þessum leik, mér fannst hann stundum vera að reyna eitthvað sem var kannski aðeins of mikið, en það er kannski bara rugl í mér?
Jah, náttúrlega þegar þú ert ungur þarfu að læra hvenær þú átt að ráðast til atlögu, stundum fannst mér hann gera það rosalega vel og mér fannst hann ekki oft í þessum leik vera að fara fram úr sér, mér fannst það frekar þannig að á einhverjum tímapunktum sem hann var með boltann í höndunum og við viljum kannski frekar að hann sé bara að fara að klára en að senda á einhverja aðra því hann er leikmaðurinn í okkar liði sem getur skapað sér skot upp úr engu, hann er mjög hæfileikaríkur. Ég ætla ekki að setja of mikla pressu á hann en okkar velgengni í vetur gengur út á það að ná að spila vel saman sem lið og að hann stækki sem leikmaður. Hann hefur langmestu möguleikana til að stækka af öllum. Hinir eru…
..þekktari stærð?
…já! Fotis er ekki að fara bæta sig mikið úr þessu…!
Þú sérð það ekki fyrir þér…
Nei!
Akkúrat…! En þessi Pruitt…hann skaut og skaut í síðasta leik og hitti ekki neitt! Maður hugsaði með sér að þessi gaur hlýtur að vera góð skytta en var bara ekki að hitta á það í síðasta leik…og hann sýndi okkur allnokkra flotta í kvöld…þetta er góð skytta?
Þetta er mjög góður skotmaður. Hann var ekki að velja skotin rétt í síðasta leik, ég skal bara skrifa það á mig! Ég var kannski að gefa honum skilaboð um að skjóta of mikið, hann vill auðvitað sanna sig, fyrsti leikurinn hans á heimavelli. En mér fannst hann gera miklu betur í þessum leik, hann spilar bara Þórskörfubolta, okkar bolti er að láta boltann fljóta og svo er bara að velja skotin vel og þá dettur þetta hjá honum.
Einmitt. Segðu mér, geta Þórsarar keppt við Val og Tindastól í vetur?
Við erum búnir að spila við Val, við erum aðeins á eftir þeim eins og staðan er í dag. Ég myndi segja að þetta velti rosalega mikið á því hversu mikið 18 ára strákurinn okkar stækkar…
…hvaða voðalegu pressu seturu á strákinn…!?
Ég er ekkert að setja pressu á hann! Það er bara pressa á okkur að stækka hann! Eins og staðan er í dag þá erum við aðeins á eftir þessum liðum, síðustu ár höfum við verið að veita þessum liðum samkeppni, auðvitað er það markmið okkar að gera það áfram. En við þurfum að slípa okkur betur saman…við eigum líka heilmikið inni hjá okkar rulluspilurum…það mun koma.
Dabbi stigalaus…Raggi Braga svolítið út á túni…
Dabbi spilaði þó frábæra vörn á Kanervo…Raggi hefur svo verið veikur núna í tvær vikur…hann æfði lítið sem ekkert í þessari viku, en við ákváðum að nota hann þó eitthvað. En svo var Emil með mjög góða innkomu…
…já vissulega…
…var með góða orku og var að setja skotin. Þeir þrífast á því að boltinn sé að fljóta, að fá boltann og geta skotið. Það er bara þeirra leikur, en þeir þurfa að snerta boltann í sókninni til þess að finna netmöskvana.
Sagði Lalli, fyrstu stigin komin í hús hjá Þórsurum og spennandi að sjá hversu mikinn usla þeir geta ollið í vetur.