Hætta varð æfingaleik Kínverja og Brasilíumanna í gær þar sem slagsmál brutust út á milli leikmanna liðanna. Kínverjar hafa í dag beðist afsökunar á framferði leikmanna sinna og tilkynntu að leikmennirnir myndu sitja námskeið um íþróttamannslega hegðun ásamt því sem stöku leikmaður muni hljóta fjársekt.
Kínverjar undirbúa sig nú á fullu fyrir Asíuleikana en kínverska körfuknattleikssambandið segir undirbúning liðsins vera í biðstöðu þessa dagana á meðan leikmenn og fleiri noti tækifærið og hugsi alvarlega sinn gang.
Eitthvað var dómgæslan að fara í taugarnar á Kínverjum í leiknum og svo fór að upp úr sauð og hnefasamlokur fuku í tonnatali. Hægt er að sjá myndband frá atvikinu hér en fréttin er á portúgölsku.
Til stóð að æfingaleikir þjóðanna yrðu fjórir talsins en Brasilíumenn hafa neitað að leika fjórða leikinn. Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem Kínverjar reiða hnefana til höggs á parketinu og hefur liðið verið sektað um tugi þúsunda dollara síðustu misserin. NBA leikmennirnir Yao Ming og Yi Jianlian voru ekki með Kína í leiknum umrædda í gær.
Ljósmynd/ Yao Ming var í Bandaríkjunum og því víðsfjarri þegar liðsfélagar hans í kínverska landsliðinu flugust á við Brasilíumenn.