spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaMyndband: Hvergerðingar æfir vegna mannlegra mistaka í Smáranum

Myndband: Hvergerðingar æfir vegna mannlegra mistaka í Smáranum

Breiðablik lagði Hamar í Smáranum í gærkvöldi í framlengdum leik í annarri umferð fyrstu deildar karla, 100-96. Eftir leikinn er Breiðablik því með fullt hús stiga á meðan Hamar hefur unnið einn leik og tapað einum það sem af er tímabili.

Hérna eru úrslit kvöldsins

Óhætt er að segja að undir venjulegs leiktíma hafi nokkuð skondið atvik komið upp. Þar sem Hamar var tveimur stigum yfir, 81-83, Breiðablik með boltann og aðeins 1.8 sekúnda eftir á klukkunni.

Blikar taka boltann inn og reyna að vinna leikinn með þriggja stiga skoti frá Maalik Cartwright. Það skot geigar þó, Zoran Vrkic tekur sóknarfrákast og leggur boltann í körfuna um leið og klukkan er að renna út. Samkvæmt dómurum leiksins voru þá 0.3 sekúndur eftir, en Hamar náði ekki að gera sér mat úr því og því var framlengt. Hreint ótrúleg röð atvika sem raunverulega er erfitt að sjá fyrir sér að geti átt sér stað á jafn stuttum tíma.

Karfan hefur undir hönunum myndbönd af atvikinu sem sjá má hér fyrir neðan. Sé rýnt í þau má sjá að klukkan er hæg í gang eftir að Maalik grípur boltann og má því gera því skóna að Blikar hafi fengið aukinn tíma til þess að jafna leikinn eða vinna hann á þessum lokasekúndum.

Karfan hafði samband við Breiðablik og spurði út í téð atvik, en samkvæmt þeim var um mannleg mistök að ræða. Sjálfboðaliði hafi verið á ritaraborðinu sem gerði þessi óheppilegu mistök. Harmar félagið að þetta hafi gerst, en líkt og körfuknattleiksáhangendur á Íslandi vita getur svona komið fyrir þrátt fyrir að vissulega reyni allir sitt besta að svo sé ekki.

Líkt og sjá má á myndbandinu urðu Hamarsmenn brjálæðislega æfir er þetta gerðist, en þeir hefðu að sjálfsögðu verið á toppi deildarinnar ef klukkan hefði farið af stað á réttum tíma þarna. Í samtali við Körfuna þennan morguninn sögðu forráðamenn félagsins að þeim hafi þótt atvikið ótrúlegt með ljósi til vægis leiksins, þar sem þarna hafi verið tvö af toppliðum fyrstu deildarinnar að kljást.

Fréttir
- Auglýsing -