Bónus deildar lið Hauka lagði fyrstu deildar lið Breiðabliks nokkuð örugglega í gær í 16 liða úrslitum VÍS bikarkeppni karla, 79-109. Haukar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslit komandi fimmtudag, en Breiðablik þarf að reyna aftur að ári.
Sigur Hauka í leiknum ekki frá sögu færandi fyrir margar sakir, þarna var Bónus deildar lið að vinna algjöran skyldusigur gegn liði í deild neðar.
Nokkuð áhugavert atriði átti sér hinsvegar stað í upphafi fjórða leikhlutans. Þegar rétt rúmar 7 mínútur voru til leiksloka og staðan var 61-85 brýtur leikmaður Breiðabliks Veigar Elí Grétarsson á leikmanni Hauka Tyson Jolly. Það brot á víst að hafa komið í kjölfar nokkurra ófagra orðaskipta á milli leikmanna liðanna. Í nánast sömu andrá og Veigar brýtur á Tyson ræðst leikmaður Hauka Steeve Ho You Fat að öðrum leikmanni Breiðabliks Loga Guðmundssyni þannig að báðum er að lokum vikið úr húsi. Hér fyrir neðan má sjá myndband af atvikinu.