Fylkir lagði heimamenn í Aþenu/Leikni í Austurbergi um helgina í uppgjöri efstu liða 2. deildar karla.
Eftir að hafa verið skrefinu á undan á upphafsmínútum leiksins missa heimamenn tökin. Hægt og bítandi nær Fylkir forystunni, eru tveimur stigum yfir eftir þrjá leikhluta og vinna leikinn svo að lokum með ellefu stigum, 97-108.
Eftir leikinn er Fylkir í efsta sæti deildarinnar með tólf sigra og tvö töp, en Aþena/Leiknir er sæti neðar með 10 sigra og þrjú töp. Leikur helgarinnar var sá annar sem liðin leika innbyrðis, en Fylkir hafði unnið fyrsta leik þeirra heima í Árbæ í lok október, 100-90. Töp Fylkismanna á tímabilinu hafa komið gegn Vestra og Álftanes b á meðan Aþena/Leiknir hafa tvisvar látið í minni pokann gegn Fylki og í eitt skipti gegn Laugdælum á Laugarvatni.
Óhætt er að segja að það hafi neistað á milli leikmanna í leik helgarinnar. Líkt og sjá má á myndandinu hér fyrir neðan áttu þeir Jóhannes Kristbjörnsson og Hermann Örn Sigurðarson dómarar í fullu fangi með að stilla leikmenn af. Samkvæmt heimildum Körfunnar tókst þeim vel til og allir leikmenn kláruðu leikinn, þó ekki allir þeirra hafi séð ástæðu til að þakka hvor öðrum fyrir hann að leik lokum.