Keflavík hefur samið við Mustapha Heron um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Subway deild karla. Staðfestir félagið þetta í samtali við Körfuna.
Mustapha er bandarískur 24 ára, 196 cm bakvörður sem kemur til liðsins frá ZTE KK í Ungverjalandi, en áður hefur hann einnig leikið sem atvinnumaður fyrir Leicester Riders í Englandi. Mustapha átti þar áður nokkuð góðan feril í bandaríska háskólaboltanum þar sem hann lék fyrir stórlið Auburn og St. Johns.
Mustapha mun koma í stað hins bandaríska CJ Burks, sem hefur yfirgefið félagið eftir að hafa skilað að meðaltali 16 stigum, 4 fráköstum og 2 stoðsendingum í 13 leikjum í vetur.