Kieraah Marlow var að venju fyrirferðamikil þegar Snæfell lagði Hauka í Domino´s deild kvenna í gærkvöldi. Marlow setti 23 stig í liði Snæfells, tók 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í 77-65 sigri Hólmara. Siarre Evans fór fyrir liði Hauka með 18 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Rósa Indriðadóttir fékk ,,Nonna-Mæju veikina” í gær og smellti niður 4 af 6 þristum sínum í leiknum.
Byrjunarliðin.
Snæfell: Kieraah Marlow, Hildur Björg, Hildur Sig, Helga Hjördís, Alda Leif.
Haukar: Margrét Rósa, Gunnhildur, María Lind, Jóhanna Björk, Siarre Evans.
Snæfell virkaði með ferskar fætur og heitar í skotum sínum í upphafi og komust í 10-3 en Haukar ætluðu ekki að sitja eftir heima og skelltu sér í gírinn og jöfnuðu 10-10 þar sem Gunnhildur Gunnars setti fimm stig í röð og kannaðist vel við sig á fjölunum í Stykksihólmi. Jóhanna Björk jafnaði aftur fyrir Hauka 3-13 með þrist. Snæfell komst þá aðeins í forskot 20-15 en Haukastúlkur voru andandi í hálsmálið á Snæfelli sem leiddu 20-19 eftir fyrsta hluta.
Haukar tóku forystu 20-26 strax í upphafi annars hluta og voru mjög einbeittar og frískar sóknarlega og tóku völdin á vellinum en ekkert vildi ofaní hjá Snæfelli sem áttu slakar sóknir, slakar sendingar og slaka nýtingu á meðan Haukar voru einnig fastar fyrir varnarlega. Smám saman virtist Snæfell finna betri takt í leik sínum og jöfnuðu 29-29 Snæfell komst með góðri hittni upp frá því í 36-29 þar sem Rósa kveikti von með góðum þrist. Staðan í hálfleik var 36-31 fyrir Snæfell.
Hjá Snæfelli var Kieraah Marlow með 9 stig og 7 fráköst og Hildur Sig og Helga Hjördís með 7 hvor. Í liði Hauka var Gunnhildur Gunnars komin með 11 stig og Siarre Evans 7 stig.
Snæfell kom með betri varnarleik í upphaf seinni hálfleiks og komust í 46-35 með fínni hreyfingu í sóknarleiknum, næstum því jafn gott þarna og það var slæmt á kafla í fyrri hálfleik. Kieraah Marlow var að koma gríðarsterk undir körfuna og Hildur Björg bætti vel í einnig. Rósa Kristín tók svaka rispur, smellti niður þremur þegar Snæfell jók forystuna 59-45 og annan til í 62-47 og bætti svo stórblokki við í vörninni strax á eftir. Snæfell leiddi 65-47 eftir þriðja hluta.
Rósa var ekki hætt í þristunum og smellti sínum fjórða niður og reif niður fráköst. Allar Snæfellsstúlkurnar voru orðnar miklu einbeittari og Haukastúlkur náðu ekki að komast í sinn flotta leik aftur og tóku leikhlé í stöðunni 68-51. Hildur Sig kom Snæfelli í 20 stiga forystu 71-51 með þremur og skotnýtingin á uppleið. Gunnhildur og Siarre Evans voru að hamast við að berjast vel ásamt Auði Írisi sem var mjög spræk og fór í alla bolta hjá Haukum sem fleytti þeim eitthvað nær en það dugði skammt þegar svo var komið undir lok fjórða hluta og Snæfell sigraði 77-65.
Snæfell:
Kieraah Marlow 23/9 fráköst, Rósa Indriðadóttir 12, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 11/6 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 10/9 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 9/5 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 7/5 fráköst/6 stoðsendingar, Berglind Gunnarsdóttir 5, Kristrún Kúld Heimisdóttir 0, Aníta Sæþórsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0, Brynhildur Inga Níelsdóttir 0.
Haukar:
Siarre Evans 18/12 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 13/4 fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir 13, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 8, Auður Íris Ólafsdóttir 7/8 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 4/4 fráköst, Ína Salome Sturludóttir 2, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Sólrún Inga Gísladóttir 0, Inga Sif Sigfúsdóttir 0, Dagbjört Samúelsdóttir 0, Aldís Braga Eiríksdóttir 0.
Umfjöllun/ Símon B. Hjaltalín
Karfan.is á Twitter: