Kamerúninn Joel Embiid spilaði sinn fyrsta NBA leik í gærkvöldi þrátt fyrir að hafa verið á samningi hjá Philadelphia 76ers sl. tvö ár. Frumraun hans á gólfinu í NBA deildinni gaf til kynna að biðin hafi verið þess virði. Hér er á ferðinni leikmaður sem gæti allt eins haft áhrif á NBA deildina af sömu stærðargráðu og Shaquille O'Neal gerði fyrir tæpum 25 árum síðan.
Embiid er 213 cm á hæð og rúm 110 kg á þyngd en hefur sýnt tilþrif þar sem hann hreyfir sig eins og bakvörður en býr jafnfram yfir miklum styrk. Oft fylgir þó böggull skammrifi því þetta magnaða eintak af körfuboltamanni hefur lengi þurft að glíma við meiðsli á sínum stutta ferli sem varð til þess að hann féll niður í þriðja sætið í nýliðavalinu 2014. Hann missti af allri úrslitakeppni háskólaboltans það eina ár sem hann lék með Kansas háskólanum vegna meiðsla í baki, hann fótbrotnaði á undirbúningstímabilinu 2014 sem hélt honum frá allt tímabilið og hann var einnig frá allt síðasta tímabil vegna sömu meiðsla.
Í gærkvöldi var hins vegar komið að stundinni sem allir Sixers stuðningsmenn hafa beðið eftir: fyrsta leik Joel Embiid í NBA deildinni. Sixers mættu Boston Celtics í ágætisleik þar sem Embiid byrjaði í miðherjastöðunni og spilaði 13 mínútur. Á þeim stutta tíma náði hann þó að skila 6 stigum (2/6 í skotum), 4 fráköstum og 2 vörðum skotum.
Af myndbrotinu úr leiknum er ekki að sjá að meiðslin hafi haft áhrif á leik hans því mýktin og snerpan eru enn til staðar. Með þetta hávaxinn mann, með hreyfingar úr kennslubók Hakeem Olajuwon, snerpu og styrk stefnir allt í að hér sé á ferðinni leikmaður sem geti mögulega breytt landslagi deildarinnar umtalsvert – haldist hann ómeiddur megnið af ferli sínum. Ekki veitir þeim í Fíladelfíu af þar sem Ben Simmons, hin vonarstjarna félagsins, verður líklegast frá allt þetta tímabil eftir fótbrot núna í haust.