spot_img
HomeFréttirMoses Malone látinn

Moses Malone látinn

Fyrrum Philadelpiha 76ers leikmaðurinn og goðsögnin Moses Malone fannst látinn á hótelherbergi í Norfolk, Virginíu eftir að hafa ekki mætt í golfmót sem hann átti að taka þátt í. Banamein hans er talið hjartaáfall sem hann á að hafa fengið í svefni.

 

Malone var lengi kallaður "Formaður frákastanna" eða "Chairman of the Boards" á meðan hann lék í NBA deildinni en sérgrein hans var sóknarfráköst. Enginn í sögu NBA deildarinnar hefur tekið fleiri sóknarfráköst en Malon en hann reif niður hvorki meira né minna en 6.731 stykki á meðan hann lék í deildinni. 7.382 ef tekin er með tími hans í ABA deildinni.

 

Malone vann einn meistaratitil með Sixers en það var árið 1983 þegar þeir sópuðu Lakers út úr úrslitunum, en Malone var einnig valinn verðmætasti leikmaður úrslitanna það árið. Malone var valinn þrisvar sinnum verðmætasti leikmaður deildarinnar og 13 sinnum í stjörnuliðið. Malone var tekinn inn í frægðarhöll körfuboltans árið 2001.

 

Malone lék lengst af með Houston Rockets, eða 6 leiktímabil en treyjunúmer hans 24 hefur verið hengt upp í rjáfur hjá Rockets liðinu honum til heiðurs. Hann lauk keppni með San Antonio Spurs árið 1995 eftir 20 ár í atvinnukörfubolta.

 

Í lok ágúst lést einnig önnur Sixers stjarna en það var Súkkulaðiþruman, Darryl Dawkins. Ekki er vitað um orsakir dauða hans. Aðrir fyrrum NBA leikmenn sem látist hafa á árinu eru Jerome Kersey sem þekktastur er fyrir leik sinn með Portland Trail Blazers og Anthony Mason sem var lengst af í New York Knicks.

 

Mynd: NBA.com

Fréttir
- Auglýsing -