Þrátt fyrir mun liðanna á töflunni síðustu árin hafa viðureignir liðanna verið æsispennandi og stórskemmtilegar. Þessi síðasta umferð fyrir jólafrí hafði í för með sér ákveðnar væntingar og vonir um skemmtilegan leik en þær vonir urðu að engu því leikurinn var ákaflega lítið fyrir augað. Þrátt fyrir jafnar upphafsmínútur komust heimamenn yfir og sigldu sigrinum heim að lokum mjög þægilega.
Dagsskipan KR var greinileg frá fyrstu mínútu, sóknarleikurinn fór undantekningarlaust í gegnum Craion sem fékk að gera það sem hann vildi. Barátta ÍR var einnig aðdáunarverð á fyrstu mínútum leiksins en KR átti greinilega ekki að fá neitt nema að hafa verulega fyrir því. Varnarleikur beggja liða var ofboðslega huggulegur, lítið um opin skot og mikið um hnoðning. Liðin skiptust á að hafa forystuna en staðan að fyrsta leikhluta loknum var 16-14.
Annar leikhluti var hægur og erfiður. Orka leikmanna fór í allskyns pirring og gæði körfuboltans eftir því. ÍR var gjörsamlega fyrirmunað að skora í leikhlutanum og skoraði ekki stig í fjóra og hálfa mínútu. KR breytti í pressuvörn sem ÍR átti engin svör við. Staðan í hálfleik 33-23 og sóknarleikur ÍR í kaffi. Oddur Rúnar leikmaður ÍR sem hefur verið þeirra besti leikmaður var kominn í jólaboð því hann var andlega fjarverandi allan fyrri hálfleikinn. ÍR vantaði allan vilja, leikgleði og stemmningu eftir fyrstu fimm mínútur leiksins. Skotnýting beggja liða var eitthvað annað, Craion var sá eini sem hitti hjá KR á meðan lykilmenn hjá ÍR hittu gott sem ekki neitt. KR áttu ekki einu sinni góðan hálfleik en þeir settu stór skot ofan í og sigu framúr. Við skulum ekkert vera að skafa af því, fyrri hálfleikur var grútleiðilegur.
ÍR átti nokkrar tilraunir til að saxa á forskot Vesturbæinga en þeir svart-hvítu fundu taktinn og náðu muninum fljótlega í tuttugu stig. Einbeiting ÍR var fokin með lægðinni og þeir gerðu sig seka um endalaus klaufamistök. KR lestinn mallaði í rólegheitunum, setti sínar körfur og spilaði fanta varnarleik. Nánast allan fjórða leikhluta spiluðu yngri leikmenn og þá var sérstaklega gaman að sjá Þórir Þorbjarnarson stíga upp og gjörsamlega tæta vörn ÍR í sig. Sýnishorna barátta ÍR í byrjun leiks dugði ekki neitt og hafði KR því að lokum 89-58 sigur.
ÍR virtist bara brotna við minsta mótlæti og misstu alla trú á verkefninu þegar KR fann taktinn og gerðu sig eins litla og hægt þar. Það bara gekk hreinlega ekkert upp hjá þeim en það segir sig sjálft að hlutirnir ganga ekki upp þegar trúin er ekki til staðar. Skotnýting gestanna var ævintýralega slök,
Oddur Rúnar átti sinn slakasta leik í vetur, 3 stig og 5 tapaðir boltar auk þess sem hann hitti 1/11 í skotum sem gerir 9% skotnýtingu. Heilt yfir voru þeir Jonathan Mitchell, Oddur Rúnar og Björgvin með skotnýtinguna 20% eða sjö skot af 35. Þetta sýnir að alltof margir lykilmenn voru langtlangtlangt undir pari og ÍR má ekki við því gegn KR.
KR liðið hitti ekki heldur á sinn besta dag, sérstaklega sóknarlega en varnarleikur liðsins var fínn. Þeir Mike Craion, Þórir og Darri áttu fínan dag. Craion var með 21 stig og 12 fráköst en Jonathan Mitchell réð ekkert við hann og var VIlhjálmur Theodór settur í að verjast honum og það gekk betur. Það er ekki vænlegt til árangurs þegar atvinnumaðurinn í liðinu sem er hærri en Craion á ekki roð í hann. Mitchell getur verið frábær sóknarlega en varnarleikur kappans er ekkert nema slakfær.
Þægilegur sigur KR þar sem enginn leikmaður þurfti að spila meira en 28 mínútur. Leikmenn KR geta farið sælir inní jólahátíðina en mega ekki verið of kokhraustir því staðreyndin er sú að þeir hefðu ekki unnið mörg lið í deildinni með þessari frammistöðu. Mögulega spiluðu þeir bara á minnstri mögulegri orku eftir að björninn var unninn en þeir eiga svo margfalt meira inni.
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson
Myndir / Bára Dröfn