Undanúrslitaviðureign KR og Snæfells er lokið með 3-1 sigri KR í rimmunni. Liðin mættust í sínum fjórða leik í DHL Höllinni í dag þar sem KR hafði 68-67 spennuþrunginn sigur á Hólmurum. Leikurinn var mögnuð skemmtun þar sem liðin skiptust á forystunni en þegar upp var staðið náði KR að slíta sig lítið eitt frá á lokasprettinum og það dugði til að tryggja sigurinn. Shannon McCallum átti enn einn skrímslaleikinn með 40 stig, 13 fráköst, 5 stoðsendingar og 7 stolna bolta!
Rauðar úr Hólminum byrjuðu betur og komust í 0-4 en KR-ingar gerðu næstu fimm stig og þannig var fyrsti leikhluti, liðin skiptust á forystunni þar sem þær Hildur Sigurðar og Berglind Gunnars voru beittar í Snæfellsliðinu en McCallum venju samkvæmt leiðandi afl hjá röndóttum með 13 stig að loknum fyrsta leikhluta. Þristarnir vildu ekki niður hjá liðunum en tveir duttu loks hjá Snæfell undir lok fyrsta hluta og leiddu Hólmarar 17-20 að honum loknum.
Röndóttar heimakonur voru fljótar að jafna metin í 22-22 og Ingi Þór kallaði Hólmara á bekkinn í leikhlé. Eftir hléð kom Hildur Siguðardóttir með þrist fyrir gestina og breytti stöðuninni í 29-31 og hafði þá skorað 16 stig eftir 15 mínútna leik. Annar leikhluti var fjörugur og hraður og mistök sáust sem jafnan fylgja þannig leik. Shannon McCallum var í algerum sérflokki í liði KR í fyrri hálfleik og var með 30 stig og 7 fráköst í leikhléi. Styrkur KR felst ekki í einum leikmanni þrátt fyrir mikla yfirburði þess leikmanns og því leiddu Snæfellingar 39-41 í hálfleik.
McCallum var með 30 stig og 7 fráköst í hálfleik hjá KR og Hildur Sigurðardóttir var með 19 stig hjá Snæfell og þau voru ekkert fríkeypis enda ,,skugginn” Guðrún Gróa að dekka hana.
Eins og annar leikhluti var fjörugur með sínum kostum og kynjum þá snöggfraus í þriðja leikhluta. Bæði lið lögðu ofurkapp á varnarleikinn og fyrir vikið var allt í lás, hin sjóðheita McCallum úr fyrri hálfleik gerði aðeins þrjú stig í leikhlutanum sem fór 10-10 og því leiddu Hólmarar 49-51 fyrir fjórða og síðasta hluta.
Fjórði leikhluti var ekki ósvipaður þeim þriðja, varnir þéttar og KR komst í 66-60 þegar tæplega þrjá mínútur voru eftir af leiknum. Þrátt fyrir dýra tapaða bolta í liði Snæfells náðu þær engu að síður að minnka muninn í 68-66. Þegar 32 sekúndur voru eftir af leiknum gerðu Hólmarar þau mistök að stíga út af vellinum með boltann og KR dæmdur boltinn. Heimakonur brenndu af góðu færi í næstu sókn en brutu svo klaufalega í Kieraah Marlow. Þarna gat Marlow jafnað með tveimur vítum þegar um átta sekúndur voru til leiksloka. Þegar Marlow var á línunni hafði Snæfell aðeins fengið á sig tvær liðsvillur í leikhlutanum og því dýrt þegar hún brenndi af fyrra skotinu en skoraði úr því síðara og staðan 68-67. Snæfell varð því að brjóta þrisvar sinnum á örskömmum tíma, það tókst en lengra náði sú saga ekki og KR fagnaði sigri.
KR leikur því til úrslita gegn annaðhvort Keflavík eða Val en þau tvö lið mætast í oddaleik á þriðjudag en Snæfell er komið í sumarfrí. Shannon McCallum var potturinn og pannan í leik KR í dag með hreint út sagt lygilegar tölur sem gáfu 41 framlagsstig! Hildur Sigurðardóttir var fremst meðal jafningja hjá Snæfell með 21 stig og 8 fráköst.
Byrjunarliðin:
KR: Björg Guðrún Einarsdóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Sigrún Ámundadóttir, Shannon McCallum og Helga Einarsdóttir.
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Hildur Björg Kjartansdóttir og Kieraah Marlow.
Leikir liðanna í seríunni:
Leikur 1: Snæfell 52-61 KR (0-1)
Leikur 2: KR 59-61 Snæfell (1-1)
Leikur 3: Snæfell 50-73 KR (1-2)
Leikur 4: KR 68-67 Snæfell (1-3) (einvígi lokið)
Dómarar: Kristinn Óskarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson. Eftirlitsmaður: Guðni Eiríkur Guðmundsson.
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ [email protected]