Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindavíkur hefur kallað inn liðsstyrk frá Serbíu en kappinn sá heitir Mladen Sokic og er 202 sm. á hæð. Sokic getur leyst nokkrar stöður á vellinum en Helgi kvaðst ekki viss um hvort leikmaðurinn yrði klár í toppslaginn gegn Snæfell annað kvöld.
,,Hann á að vera á leið sinni til landsins en ég er ekki að reikna með honum í Snæfellsleikinn en það er aldrei að vita,” sagði Helgi en Sokic mun vísast sjást í leikstöðum 2-4 í Grindavíkurliðinu.
,,Við verðum núna að halda áfram að rífa okkur upp á rassgatinu því þetta hefur verið slakt undanfarið. Það er mikilvægt að menn nái að byggja upp sjálfstraust fyrir framhaldið hjá okkur svo ég vona að hlutirnir séu á réttri leið eftir bikarsigurinn gegn Haukum,” sagði Helgi en það kemur í ljós á morgun hvort nýji leikmaðurinn Sokic verði í hópnum gegn Snæfell.
Mynd/ Helgi Jónas á von á liðsstyrk frá Serbíu.