spot_img
HomeFréttirMitchell fékk blóðtappa í kálfa og er frá í 1-2 vikur!

Mitchell fékk blóðtappa í kálfa og er frá í 1-2 vikur!

Jonathan Mitchell leikmaður ÍR mun missa af næsta leik þar sem hann fékk blóðtappa í kálfann í síðasta leik gegn FSu. ÍR gerði þá góða ferð í Iðu til nýliðanna og komst á braut með 81-91 sigur í farteskinu.

Mitchell lék 29 mínútur í leiknum, gerði 23 stig og tók 13 fráköst en varð frá að víkja þegar um sex mínútur lifðu leiks. Í fyrstu var talið að hann hefði meiðst á kálfa en annað kom svo á daginn við nánari skoðun. 

„Hann fékk blóðtappa í kálfann og er kominn í lyfjameðferð vegna þessa og verður frá næstu 1-2 vikurnar,“ sagði Bjarni Magnússon þjálfari ÍR í samtali við Karfan.is. 

„Þetta var alls ekki sú greining sem við áttum von á en til allrar hamingju greindist þetta mjög snemma og flokkað sem minni háttar tilfelli,“ sagði Bjarni en Mitchell fer í aðra blóðprufu og athugun á morgun, miðvikudag, og er vonast til að leikmaðurinn geti farið að æfa eftir um það bil eina viku eða svo. 

Það þykir því ljóst að Mitchell verður amk frá í viðureign ÍR og Grindavíkur í Hellinum næsta fimmtudag. 

Mynd/ Guðmundur Karl – sunnlenska.is – Víðir Óskarsson læknir á Selfossi hlúir að Mitchell í Iðu þegar skammt lifir leiks FSu og ÍR í Domino´s-deild karla. 

Fréttir
- Auglýsing -