spot_img
HomeFréttirMinningarsjóður Ölla afhenti eina milljón króna

Minningarsjóður Ölla afhenti eina milljón króna

Minningarsjóður Ölla gefur Hjálparstarfi kirkjunnar eina milljón króna til að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

Fimmtudaginn 28. júlí síðastliðinn afhenti Minningarsjóður Ölla Hjálparstarfi kirkjunnar eina milljón króna sem verða nýttar í að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna. Upphæðin safnaðist að stórum hluta í áheitasöfnun fyrir sjóðinn í tengslum við Reykjavíkurmaraþonið 2015. Áður hefur sjóðurinn styrkt Fjölskylduhjálp Íslands og Velferðarsjóð Suðurnesja um sömu upphæð. Sjóðurinn hefur einnig veitt styrki beint til barna.

Minningarsjóður Ölla var stofnaður haustið 2013 í kringum frumsýningu á heimildamyndinni um Örlyg Aron Sturluson, einn allra efnilegasta körfuboltamann sem Ísland hefur átt. Ölli lék með meistaraliði Njarðvíkur og A-landsliði Íslands og var valinn fyrstur í lið í fyrsta Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands. Ölli lést af slysförum þann 16. janúar árið 2000, daginn eftir Stjörnuleikinn, aðeins 18 ára gamall. Vinur Ölla og samherji í Njarðvík á sínum tíma, Logi Gunnarsson körfuboltamaður, afhenti peningagjöfina í miðstöð Hjálparstarfs kirkjunnar að Háaleitisbraut í Reykjavík. Mynd frá afhendingunni er í viðhengi.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur að markmiði að draga úr hættunni á félagslegri einangrun fólks vegna fátæktar. Auk inneignarkorta í matvöruverslanir fyrir efnalitlar fjölskyldur er boðið upp á ráðgjöf og sjálfstyrkingar- og færninámskeið. Hjálparstarfið leggur sérstaka áherslu á stuðning við barnafjölskyldur svo börnin geti tekið virkan þátt í samfélaginu.

„Það er ómetanlegt að fá þennan stuðning. Hann gjörbreytir stöðunni fyrir börn sem án hans gætu ekki tekið þátt í íþróttastarfi með jafnöldrum sínum. Í fyrra fengu foreldrar hátt í 200 barna styrk til að mæta útgjöldum vegna íþróttaiðkunar, tónlistarnáms og tómstundastarfs barna og unglinga og við reiknum með svipuðum fjölda umsókna í ár,“ sagði Kristín Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, við móttöku styrkjarins.
Félagsráðgjafar Hjálparstarfsins taka við styrkumsóknum vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna og unglinga á miðvikudögum frá kl. 12 – 16 frá og með 10. ágúst næstkomandi.  Skrifstofa Hjálparstarfsins er að Háaleitisbraut 66, Reykjavík.

Forsvarsmenn Minningarsjóðs Ölla vilja minna hlaupara í Reykjavíkurmaraþoninu 2016 að þeir geta hlaupið fyrir sjóðinn með því að skrá sig á hlaupastyrkur.is. Búið er að stofna hlaupahóp á Facebook sem telur rúmlega 200 manns en vonast er til þess að stór hluti þess fólks muni hlaupa fyrir málefnið.

Sjóðurinn tekur jafnframt á móti frjálsum framlögum en reikningsnúmer sjóðsins er 0322-26-021585, kt. 461113-1090.

Minningarsjóðurinn á Facebook

Frekari upplýsingar veita:
María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Minningarsjóðs Ölla, sími 897 5357
Kristín Ólafsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, sími 528 4406

Fréttir
- Auglýsing -