Njarðvík lagði Tindastól í næstsíðustu umferð Bónusdeildar karla í IceMar-Höllinni í kvöld. Jafn og spennandi leikur sem lauk með 101-90 sigri Njarðvíkinga. Miðherjarnir Milka og Agravanis hinn stærri settu upp skemmtilega sýningu en þegar öllu var á botninn hvolft voru það heimamenn sem reyndust þrautgóðir á raunastund.
Tindastóll hélt Njarðvík þó í skefjum með tilliti til innbyrðisviðureignar liðanna en þó er ein sviðsmynd eftir á borðinu fyrir Njarðvíkinga. Í einhverri mynd gæti Njarðvík átt möguleika á deildarmeistaratitli en það felur í sér að Tindastóll tapi í síðustu umferð og Stjarnan tapi síðustu tveimur leikjunum sínum en slíkt er ekkert hægt að skoða frekar fyrr en að lokinni viðureign Stjörnunnar og Keflavíkur annað kvöld.

Ljónin frá Njarðvík voru skeinuhættari á upphafsmínútunum og leiddu 17-6 gegn Tindastól. Agravanis hinn stærri kom hinsvegar inn af bekk gestanna og skellti niður 3 af 5 þristum sínum í fyrsta leikhluta og færði gestina nærri. Heimamenn voru feti framar og leiddu því 29-22 eftir fyrsta leikhluta. Agravanis stærri og Basile báðir með 9 stig hjá gestunum en Dwayne 10 og Veigar 8 hjá Njarðvík.
Krókódílarnir bitu rækilega frá sér í öðrum leikhluta, þéttu raðirnar varnarlega og skoruðu 9-18 á Njarðvík og leiddu 38-40 eftir liðlega sex mínútna leik í öðrum leikhluta. Shabazz tókst loks að skora sín fyrstu stig fyrir heimamenn í fyrri hálfleik eftir nokkra eyðimerkurgöngu og kom Njarðvík í 45-40 og ljónin leiddu svo 49-46 í hálfleik.
Milka mætti með læti inn í þriðja leikhluta fyrir heimamenn, þristar og körfur á blokkinni og Njarðvík komst í 60-52. Tindastólsmenn náðu þó að minnka muninn þegar Geks setti þrist og fékk víti að auki, þar með lauk þriðja leikhluta og staðan 68-65 og æsispennandi lokasprettur framundan.
Í fjórða leikhluta hélt Milka áfram að spila glimrandi vel á báðum endum vallarins, lætin í Milka virkuðu vel á restina af Njarðvíkurliðinu sem hægt og bítandi náði undirtökunum í leiknum. Shabazz kom Njarðvík 78-72 með þrist og allan fjórða leikhluta voru heimamenn við stýrið og lokuðu verkefninu 101-90 eins og áður greinir.

Milka fór mikinn með 26 stig, 7 fráköst, 3 stoðsendingar og 5 varin skot sem setur hann í 2. sæti deildarinnar yfir flest varin skot í einum leik en metið þessa vertíðina á hinn danski Mortensen í liði Girndavíkur með 7 varin skot í einum og sama leiknum. Dwayne bætti svo við 21 stigi og 10 fráköstum, Shabazz með 20 stig, Mario með tvennu 15 stig og 14 fráköst og Veigar bætti við 13 stigum. Hjá Tindastól var Agravanis stærri með 21 stig og 7 fráköst og átti vafalítið sinn besta leik á Íslandi til þessa. Basile bætti við 20 stigum og Docoure með 17 stig og 9 fráköst.
Nokkrir punktar:
• Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkinga tók út leikbann í leiknum og því var það Logi Gunnarsson aðstoðarþjálfari sem stýrði liðinu í kvöld. Fyrsti leikur Loga sem aðalþjálfari Njarðvíkurliðsins og hann byrjar þá vegferð 1-0.
• Dimitrios Agravanis mætti með læti inn í leikinn af bekk Stólanna og skellti niður 3 af 5 þristum sínum í fyrsta leikhluta. Fyrir leik kvöldsins hafði hann samtals skotið fjórum þristum á tímabilinu og hitt úr einum. Sérdeilis framför það hjá stóra manninum sem lokaði 5-11 í þristum þetta kvöldið.
• Geks brenndi af víti í leiknum, aðeins fjórði leikurinn á tímabilinu þar sem hann setur ekki niður öll vítin sín, mögnuð skytta en þetta fer ekki allt niður. Hann brenndi síðast af víti í deildarleik í janúar gegn ÍR.
• Þetta var fimmti deildarleikurinn á tímabilinu þar sem Sigtryggur Arnar skorar ekki tveggja stiga körfu en í fyrsta sinn sem það gerist og Tindastóll tapar.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)
Gangur leiksins
10-3, 15-6, 29-22
36-28, 38-38, 49-46
53,50, 62-55, 68-65
78-72, 87-75, 101-90