spot_img
HomeFréttirMiklar sveiflur í Ljónagryfjunni: Njarðvík tekur forystuna

Miklar sveiflur í Ljónagryfjunni: Njarðvík tekur forystuna

22:42

{mosimage}

(Brenton átti góðan leik fyrir Njarðvíkinga í kvöld)

 

Íslandsmeistarar Njarðvíkur hafa tekið 1-0 forystu í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar karla eftir 99-78 sigur á KR í Ljónagryfjunni í kvöld. Leikurinn var harður og sveiflukenndur þar sem Njarðvíkingar fóru á kostum í fjórða og síðasta leikhluta. Jeb Ivey var atkvæðamestur Njarðvíkinga í kvöld með 24 stig en hjá KR var Tyson Patterson með 20 stig. Miðherjarnir Fannar Ólafsson og Jeremiah Sola voru fjarri sínu besta í kvöld og þurfti Fannar frá að víkja með 5 villur um miðbik fjórða leikhluta. Liðin mætast í öðrum úrslitaleiknum í DHL-Höllinni í Vesturbænum á fimmtudag kl. 20:00.

 

Brenton Birmingham og Tyson Patterson hófu leik af krafti fyrir sín lið í kvöld og var jafnt með liðunum uns Jeb Ivey breytti stöðunni í 19-13 Njarðvík í vil með þriggja stiga körfu. Fannar Ólafsson var óvenjulega pirraður í upphafi leiks í kvöld og fékk snemma dæmt á sig tæknivíti fyrir mótmæli við dómara. Njarðvíkingar gengu á lagið og höfðu yfir að loknum 1. leikhluta 29-23 en það var Tyson Patterson sem gerði lokastig leikhlutans.

 

Njarðvíkingar juku muninn snemma upp í 11 stig í 2. leikhluta eftir teigskot frá Ivey og staðan 38-27. Brynjar Björnsson var sterkur í liði KR og hitti vel við þriggja stiga línuna en Njarðvíkingar voru mun ákveðnari og réðu lögum og lofum í teignum, bæði í vörn og sókn. Steinar Kaldal setti tvo þrista í röð fyrir KR og minnkaði muninn í 44-36 en Njarðvíkingar létu það ekki á sig fá og luku fyrri hálfleik í stöðunni í 58-44 og Ivey kominn með 18 stig í liði Njarðvíkur. Hjá KR var Tyson Patterson kominn með 14 stig en hann og Brynjar Björnsson voru líflegastir hjá KR í kvöld.

{mosimage}

 

Benedikt Guðmundsson hefur blásið KR-ingum byr í brjósti í hálfleiksræðu sinni en þeir röndóttu hófu strax í þriðja leikhluta að saxa á forskot heimamann og með þriggja stiga körfu frá Brynjari var staðan orðin 66-64 Njarðvík í vil. Þegar um mínúta var eftir af þriðja leikhluta tróð Baldur Ólafsson yfir Igor Beljanski og lá við að Baldur rifi körfuhringinn niður í gólf með sér, svo svakaleg var troðslan. Tilþrif Baldurs kveiktu rækilega í KR og þegar Brynjar Björnsson setti niður þriggja stiga körfu þegar þrjár sekúndur voru eftir komust KR-ingar í 70-72 og unnu leikhlutann 12-28 og gríðarleg spenna í Ljónagryfjunni fyrir fjórða og síðasta leikhlutann…eða svo héldu allir þeir sem fylgdust með leiknum.

 

Eftir slakan þriðja leikhluta rönkuðu Íslandsmeistararnir við sér og það sem gerðist í fjórða leikhluta var nánast ótrúlegt. Njarðvíkingar hófu síðasta leikhlutann með því að gera 10 stig án þess að KR næði að svara og staðan 80-72 eftir þriggja stiga körfu frá Guðmundi Jónssyni.

{mosimage}

 

Vörn Njarðvíkinga small saman í fjórða leikhluta og áttu KR-ingar engin svör og náðu sjaldan að brjóta sér leið upp að körfunni. Fannar Ólafsson fékk um miðbik leikhlutans sína fimmtu villu en hann gerði aðeins sex stig í kvöld og ljóst að KR þarf meira frá landsliðsmiðherjanum sínum ef ekki á illa að fara.

 

Njarðvíkingar sýndu mátt sinn og megin í kvöld og unnu lokaleikhlutann 29-6 og viðsnúningurinn ótrúlegur. Staðan er því 1-0 Njarðvíkingum í vil en næsti leikur liðanna fer fram í DHL-Höllinni í Vesturbænum á fimmtudag kl. 20:00.

 

Gangur leiksins:

5-5,19-13,29-23

34-25,46-38,58-44

63-53,66-61,70-72

75-72,88-76,99-78

 

www.vf.is

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -