spot_img
HomeFréttirMikilvægur sigur meistaranna

Mikilvægur sigur meistaranna

 

Keflvíkingar mættu í DHL Höllina í kvöld staðráðnir í að ná í sigur til þess að eiga möguleika á 4ða sætinu og þar með heimavallarrétti í úrslitakeppninni. Í síðustu umferð unnu bæði lið góða sigra, KR-ingar lögðu Njarðvík og Keflvíkingar sigruðu Hauka.

 

Eftir nokkuð jafnan fyrsta leikhluta þar sem liðin skiptust á að skora þá sigu KR-ingar framúr og héldu 9 stiga forystu þegar að hálfleiksflautan gall. Seinni hálfleikur var svo eign KR þar til alveg í lokin þegar að Keflvíkingar byrjuðu að ógna, Guðmundur Jónsson klikkaði á þristi þegar að um 12 sekúndur voru eftir sem hefði gefið Keflvíkingum forystuna. Lokasekúndurnar tóku talsverðan tíma en svo fór að KR fagnaði sigri 82-80.

Stigahæstur heimamanna var Brynjar Þór Björnsson með 26 stig en hjá Keflvíkingum var Amin Stevens atkvæðamestur með 25 stig og 16 fráköst.

 

Sóknarfráköst

Það er oft þannig að í jöfnum og spennandi leikjum þá vinnur liðið sem er grimmara í fráköstunum, það gerðist í kvöld en KR-ingar tóku 19 sóknarfráköst gegn 7 slíkum hjá Keflavík. Það var að mörgu leiti átakanlegt að sjá eina sóknina þar sem KR-ingar fengu 5 möguleika á því að skora eftir sóknarfrákast. Philip Alawoya var duglegastur heimamanna í sóknarfráköstunum en hann tók heil 8 stykki, sem glöggir sjá að eru fleiri en allt lið Keflavíkur tók í leiknum.

 

Varnarleikur

Amin Stevens hefur leikið varnir liðana í Dominos deildinni grátt í vetur en KR komu tilbúnir með varnarafbrigði til þess að koma boltanum úr höndunum á honum. Þeir tvöfölduðu og jafnvel þrefölduðu á Stevens um leið og hann greip boltann og var kappinn ekki alveg nógu fljótur í sínum ákvörðunum. Leikmenn KR náðu oft að slá í boltann eða þröngva honum í erfið skot og erfiðar sendingar. Erfitt að segja að maður sem var með 25 stig og 16 fráköst hafi ekki verið góður, en hann átti í miklum vandræðum með agressíva vörn heimamanna, sérstaklega í fyrri hálfleik og tapaði 5 boltum í leiknum.

 

Neðan úr bæ

KR-ingar voru með afbragðs skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld. Lokaniðurstaðan var sú að þeir hittu úr 12 af 26 þriggja stiga skotum sínum í leiknum sem gefur 46% nýtingu og hefði hún hæglega getað verið betri enda mörg skotin sem geiguðu ansi opin. Þeirra heitastur var Brynjar Þór Björnsson sem setti niður 7 af 12 fyrir utan línuna. Hann splæsti líka í glæsilegan flautuþrist undir lok fyrri hálfleiks, henti boltanum upp fyrir aftan miðju og setti hann ofaní af spjaldinu. Hvort hann hafi kallað spjaldið veit undirritaður ekki.

 

Lokasekúndurnar

Lokasekúndur leiksins voru mjög einkennilegar og fær hvorugt liðið afbragseinkunn fyrir það hvernig þeir spiluðu úr sínum spilum. Í stöðunni 79-77 tók Guðmundur Jónsson þrist sem geigaði, Keflvíkingar sofnuðu á verðinum og Þórir Þorbjarnarson fékk frítt sniðskot þegar að 6 sekúndur voru eftir. Staðan 81-77. Keflvíkingar hentu boltanum beint undir körfuna þar sem Stevens var einn og óvaldaður, 81-79 og 4 sekúndur eftir á klukkunni. Keflvíkingar þurftu að brjóta tvisvar þar sem KR var ekki komið í skotrétt og þótti Brynjari Þór nóg um seinni villuna, helti sér yfir Guðmund Jónsson og uppskar tæknivillu. Brynjar setti 1 af 2 vítum og Hörður Axel setti tæknvítið, staðan 82-80 með 13 sekúndubrot eftir af klukkunni og einungis hægt að blaka ofaní þar sem það þarf minnst 30 sekúndubrot til þess að grípa og skjóta. Í stað þess að henda boltanum í átt að körfunni og vonast eftir blaki þá fékk Magnús Traustason boltann fyrir utan þriggja stiga línuna, tíminn leið áður en hann gat snúið sér og meistararnir gátu andað léttar.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir Davíð Eldur

 

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -