Laugardalshöllin mun hafa orðið fyrir miklu vatnstjóni nú fyrir helgina og óvíst er hvenær verður hægt að nota hana á nýjan leik samkvæmt heimildum Körfunnar. Veriðvar að gera upp einhverja hluta hennar og mun lögn hafa sprungið með þessum afleiðingum.
Alls er óvíst hversu langan tíma það mun taka að laga húsið en svatsýnasta mat heimildarmanna Körfunnar gera ráð fyrir 10 mánuðum í að laga og skipta um undirlag keppnisgólfs hallarinnar. Samkvæmt staðfestum heimildum mun nákvæmur tímarammi þó ekki liggja fyrir, en samkvæmt þeim er Laugardalshöllin lokuð og verið er að vinna í að finna út nákvæmlega hversu umfangsmiklar aðgerðir þurfi að fara í.
Þetta getur að sjálfsögðu haft mikil áhrif á þau æfingar, mót og keppnir sem halda átti í höllinni á nýju ári, en þar voru fyrirhugaðir leikir bæði kvenna og karlaliðs Íslands, sem og bikarhelgin vinsæla.