LeBron James selur mest af skóm í Bandaríkjunum fyrir Nike af þeim leikmönnum sem enn eru í NBA deildinni. Kobe Bryant selur mest fyrir Nike í Kína. Hvorugur þeirra kemst þó nærri Michael Jordan sem á sitt eigið vörumerki hjá Nike.
Árið 1984 þurfti Michael Jordan að velja milli þess að semja við íþróttavörurisann Adidas eða lítt þekktan skóframleiðanda sem bar nafnið Nike. Jordan langaði, að eigin sögn, mest til að semja við Adidas því honum fannst best að spila í skóm frá þeim en ákvað hins vegar að ganga til liðs við Nike þar sem þeir buðu honum betur. Philip Knight, hugsuðurinn á bakvið Nike, hafði veðsett allt nema ömmu sína til að fjármagna þennan samning og átti Jordan að skjóta vörumerkinu Nike inn í vitund körfuboltaheimsins. Úr varð Nike Air Jordan I skórnir sem enn þann dag í dag seljast eins og heitar lummur fyrir fleiri hundruð dollara parið og Nike er orðið að allsráðandi afli í íþróttavörugeiranum.
Michael Jordan er nú eini íþróttamaðurinn hjá sem á sitt eigið undirmerki hjá Nike sem er kallað Jordan Brand. Hér að neðan eru nokkrar af þeim ástæðum fyrir því að Nike geri þessa einu undantekningu:
Ef Jordan Brand stæði eitt og sér í sölutölum fyrir íþróttaskó í Bandaríkjunum hefði Jordan Brand 11,2% hlutdeild og væri annað stærsta vörumerkið í heiminum. Nike er með 41,4% í fyrsta sæti. Í sölutölum á körfuboltaskóm í Bandaríkjunum er Jordan Brand langstærst 58% og Nike með 34%
Árið 2012 seldust 22 milljónir para af Jordan Brand skóm á $2,5 milljarð sem samsvarar 302 milljörðum íslenskra króna.
Salan, það sem af er ári 2013, hefur aukist um 89% á ársgrundvelli.
Meðalverð á körfuboltaskóm frá Jordan Brand er $127 eða 15.000 kr á meðan meðalverð á körfuboltaskóm frá öðrum merkjum er $94 eða 11.000 kr
Retro línurnar frá Jordan Brand, sem eru endurgerðir af gömlum línum sem Nike gerði fyrir Michael Jordan á meðan hann spilaði, seljast langmest. Söluhæstu línurnar eftir árum eru: 2011 – Air Jordan 3, 2012 – Air Jordan 4 og 2013 – Air Jordan 8.