spot_img
HomeFréttirMiami meistari - James bestur með þrennu í lokaleiknum

Miami meistari – James bestur með þrennu í lokaleiknum

Miami Heat er NBA meistari eftir 4-1 sigur á Oklahoma City Thunder í úrslitaseríu deildarinnar. Liðin mættust í American Airlines Arena í nótt þar sem lokatölur voru 121-106 Miami í vil. Oklahoma vann fyrsta leikinn í einvíginu en Heat tók næstu fjóra í röð.
Sex leikmenn hjá Miami gerðu 10 stig eða meira í leiknum og þeirra fremstur var LeBron James sem mætti með þrennu börnin góð! 26 stig, 11 fráköst og 13 stoðsendingar og var verðskuldað valinn besti leikmaður úrslitanna. Chris Bosh gerði 24 stig og tók 7 fráköst og þá var Dwyane Wade með 20 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar. Mike Miller var svo ekkert að gantast þær 23 mínútur sem hann lék í leiknum og setti niður 23 stig, 7 af 8 í þristum!
 
Kevin Durant var atkvæðamestur í liði Oklahoma með 32 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Þeir Russell Westbrook og James Harden bættu við 19 stigum hvor og örvhenti reynsluboltinn Derek Fisher lagði 11 stig í púkkið.
 
Miami leiddi með 10 stiga mun í hálfleik en að loknum þriðja leikhluta var munurinn kominn upp í 24 stig og eftirleikurinn auðveldur. Þeir James og Wade fóru af velli þegar skammt var til leiksloka og áhorfendur í American Airlines Arena lágu ekki á fagnaðarlátum sínum til þeirra félaga.
 
Óhætt að segja að þessi fimmti leikur hjá Heat hafi verið smá ,,íslenskur" enda skaut liðið 26 þriggja stiga skotum í leiknum og setti niður 14, Miller með 7 þeirra en þetta er jöfnun á meti frá árinu 1995 þegar Houston og Orlando léku til úrslita. Þá varð Miami í nótt fyrsta liðið til þess að vinna alla þrjá leikina á heimavelli og verða meistari síðan 2-3-2 leikjakerfið var sett á árið 1985.
 
Þar sem LeBron James er orðinn NBA meistari í fyrsta sinn verður ekki annað séð en að ,,ákvörðunin" sem á sínum tíma hreyfði við ótrúlegasta fólki… hafi verið góð!
 
 
Mynd/ LeBron James með NBA meistaratitilinn.
 
Fréttir
- Auglýsing -