Fjórða úrslitaviðureign Miami Heat og Oklahoma City Thunder fór fram í nótt í American Airlines Arena þar sem heimamenn í Miami höfðu betur 104-98. Þrír leikmenn Heat gerðu 25 stig eða meira í leiknum en stigahæstur hjá Oklahoma var Russell Westbrook með 43 stig.
Westbrook minnkaði muninn fyrir Oklahoma í 101-98 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka en Miami þraukaði og kláruðu leikinn 104-98. Westbrook fór eins og áður greinir fyrir gestunum með 43 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Hann brenndi af öllum þremur þristunum sínum í leiknum, setti niður 3 af 3 vítum sínum og var svo 20-32 í teigskotum. Kevin Durant bætti svo við 28 stigum.
LeBron James var stigahæstur hjá Heat með 26 stig, 12 stoðsendingar og 9 fráköst. Ekki í fyrsta sinn sem þessi maður daðrar við þrennuna. Þeir Dwyane Wade og Mario Chalmers gerðu svo báðir 25 stig.
Staðan í einvíginu er því 3-1 fyrir Miami sem þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér NBA titilinn. Fimmti leikur liðanna er á aðfararnótt föstudags þar sem Miami getur orðið meistari en leikurinn fer fram á þeirra heimavelli. Ef Oklahoma tekst að vinna leik fimm þá fá þeir tvo síðustu leikina á sínum heimavelli.
Mynd/ Mario Chalmers setti 25 stig fyrir Heat í nótt.