Keflavík er komið í 16 liða úrslit Poweradebikarkeppninnar eftir 71-77 sigur á KR í DHL-Höllinni í kvöld. Magnús Þór Gunnarsson skellti Keflvíkingum á bak sér og bar þá inn í næstu umferð með sannkallaðri flugeldasýningu. KR var aldrei langt undan en það var Magnús sem reið baggamuninn.
Brynjar Þór Björnsson var beittur á upphafsmínútunum og gerði 7 af 13 fyrstu stigum KR í leiknum sem komust í 13-6 eftir þrist frá Brynjari áður en Keflvíkingar náðu að ranka við sér. Eftir þristinn frá Brynjar hoppuðu Keflvíkingar inn með 5-0 áhlaup en það var Martin Hermannsson sem átti lokaorðið í fyrsta leikhluta með stökkskoti er hann kom KR í 20-16.
Michael Craion reyndist KR erfiður í upphafi annars leikhluta og gerði sex stig í röð fyrir gestina og Keflvíkingar náðu að jafna 22-22. Varnarleikur Keflavíkur var þéttur og góður framan af leikhlutanum og heimamenn í KR lentu í virkilegu basli í sínum sóknaraðgerðum. Keflvíkingar hefðu örugglega getað byggt upp góða forystu en Stephen McDowell var ekki á því að láta boltann frá sér fyrr en eftir að hafa klappað honum duglega í hverri einustu sókn.
Snorri Hrafnkelsson skaust inn af tréverkinu og gerði fjögur stig í röð fyrir Keflavík og breytti stöðunni í 24-33. KR-ingar náðu þó að minnka muninn í 34-37 og þannig stóðu leikar í hálfleik. Brynjar Þór Björnsson var með 13 stig hjá KR í hálfleik og Kristófer Acox var að skila sínu vel. Hjá Keflavík var Craion með 14 stig og Valur Orri áberandi þegar hann var inná. Magnús Þór Gunnarsson var að sama skapi skítkaldur í fyrri hálfleik, 0 af 7 í þristum, en vélbyssan átti ekki eftir að sitja undir þeirri tölfræði mikið lengur.
Magnús Þór opnaði síðari hálfleik með þrist og eftir það varð ekki aftur snúið. Brynjar Þór svaraði þessum reyndar í sömu mynt fyrir KR og þriðji leikhluti var hnífjafn. Fína Keflavíkurvörnin úr öðrum leikhluta var aðeins farin að gefa eftir í þriðja hluta en Magnús hélt sínum mönnum við efnið og minnkaði muninn í 48-47 eftir að KR hafði tekið 7-0 áhlaup.
Undir lok leikhlutans misstu Keflvíkingar Almar Guðbrandsson af velli með fimm villur og hafa gárungarnir í Keflavík haft það á orði að þarna sé fundinn villuarftaki Jóns N. Hafsteinssonar. Magnús Þór lokaði svo leikhlutanum með þrist fyrir Keflavík og staðan 50-55 fyrir gestina þegar haldið var inn í lokasprettinn.
Það fór um salinn í upphafi fjórða leikhluta þegar Valur Orri setti einn svellkaldan þrist og kom Keflavík í 50-60 en heimamenn svöruðu með 5-0 áhlaupi. Keflvíkingar voru ávallt með forystuna í fjórða leikhluta en KR lét ekki stinga sig af, Martin Hermannsson gerði fjögur í röð fyrir KR og minnkaði muninn í 62-65. Hér á eftir komu svo dýrustu mistök KR í leiknum því í tvígang gleymdu þér sér gagnvart Magnúsi og hann bara refsaði með þristum enda kominn í ham!
Magnús Þór kom Keflavík í 62-68 með þrist og aftur í 67-74 með öðrum þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka, þetta voru sannkallaðar tívolíbombur og KR átti ekki afturkvæmt. Smá villu- og vítaleikur gerði vart við sig í lokin en Keflavík var með þennan í Irwin Tools ,,wise-grip”og kláruðu að lokum 71-77.
Maður leiksins óumdeilt var Magnús Þór Gunnarsson með 27 stig, 4 fráköst og 4 stoðsendingar. Kallinn var 0-7 í þristum í fyrri hálfleik en lauk leik 7-19 í þristum. Valur Orri átti góða spretti og sýndi enn eina ferðina að hann hefur stáltaugar og pung í stóru skotin, lauk leik með 11 stig og 5 stoðsendingar og var alltaf ógnandi. Michael Craion gerði 16 stig og tók 9 fráköst og lék hvað best í öðrum leikhluta en fékk að leika lausum hala oft og tíðum. Þær tvær villur sem hann fékk í kvöld hefðu vel getað verið umtalsvert fleiri. Stephen McDowell var afleitur með 4 stig og allar þær 30 mínútur sem hann spilaði klappaði hann boltanum eins og hann myndi aldrei sjá hann aftur.
Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur í liði KR í kvöld með 19 stig og setti nokkrar ansi stórar. Helgi Már Magnússon gerði 13 stig og tók 6 fráköst og Martin Hermannsson var sömuleiðis sterkur með 14 stig og 9 stoðsendingar en var mikið að koma upp með boltann. Keegan Bell lék ekkert í síðari hálfleik og þar sem Martin er ekki leikstjórnandi að upplagi, amk er það mat greinarhöfundar, þá naut hann sín ekki til fulls eins og hann myndi gera með sterkum leikstjórnanda.
Keflvíkingar eru því komnir í 16 liða úrslit keppninnar en KR er úr leik. Keflavík er ríkjandi bikarmeistari en þeir unnu titilinn eftir sigur á Tindastól í Laugardalshöll á síðasta tímabili.
KR-Keflavík 71-77 (20-16, 14-21, 16-18, 21-22)
KR: Brynjar Þór Björnsson 19, Martin Hermannsson 14/5 fráköst/9 stoðsendingar, Helgi Már Magnússon 13/6 fráköst/5 stolnir, Finnur Atli Magnusson 10/5 fráköst, Kristófer Acox 10/6 fráköst/3 varin skot, Jón Orri Kristjánsson 3, Sveinn Blöndal 2, Darri Freyr Atlason 0, Emil Þór Jóhannsson 0, Keagan Bell 0, Þorgeir Kristinn Blöndal 0, Ágúst Angantýsson 0.
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 27/4 fráköst, Michael Craion 16/9 fráköst/4 varin skot, Darrel Keith Lewis 11/8 fráköst, Valur Orri Valsson 11/5 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 4/5 fráköst, Stephen Mc Dowell 4/6 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Andri Daníelsson 2, Almar Stefán Guðbrandsson 2, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Andri Þór Skúlason 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Björgvin Rúnarsson
Mynd/ [email protected] – Menn hreinlega krupu við fætur Magnúsar í kvöld.