Nú er NBA tímabilinu lokið og því ekki úr vegi að veita verðlaun. Á næstu dögum mun Karfan.is heiðra nokkra einstaklinga sem hafa skarað fram úr í þeim hefðbundnu flokkum sem verðlaunað er fyrir í NBA deildinni. Margt kemur til álita þegar að svona verðlaun eru veitt en til grundvallar liggur aðallega gildismat þess sem þetta skrifar.
Mestu framfarir: Giannis Antetkounmpo – Milwaukee Bucks
Giannis Antetokounmpo er sá leikmaður sem hefur sýnt mestu framfarirnar í vetur. Hann fór úr því að vera efnilegur leikmaður með mikla íþróttahæfileika í að vera spilari sem getur spilað allar stöðurnar á vellinum í vörn og flestar í sókn, og gert það vel. Giannis tókst það sem engum hefur tekist áður, hann var í top 20 af öllum leikmönnum deildarinnar í öllum stærstu tölfræðiflokkunum. Stigum, fráköstum, stoðsendingum, stolnum boltum og vörðum skotum.
Hann lauk tímabilinu með 22,9 stig, 8,7 fráköst, 5,4 stoðsendingar, 1,6 stolna bolta og 1,9 blokk. Frábært ár hjá Giannis sem að er vel að þessum verðlaunum kominn.
2. sæti: Nikola Jokic – Denver Nuggets
Jókerinn átti sannkallað útbrots-tímabil í vetur og varð mjög vinsæll þegar að leið á tímabilið, leikmaður sem getur allt og kemur mörgum á óvart með mögnuðum sendingum og sóknarhreyfingum.
3. sæti Rudy Gobert – Utah Jazz
Frábært ár hjá Rudy Gobert sem fór úr spennandi ungum leikmanni yfir í einn mest dominant varnarmann deildarinnar.