Fimm leikir fóru fram í NBA deildinni í gærkvöldi og nótt. Memphis Grizzlies skelltu meisturum Miami Heat og LA Lakers lögðu Sacramento Kings. Þá er komið á hreint hver taki við Lakers en það er enginn annar en Mike D´Antoni.
Memphis Grizzlies 104-86 Miami Heat
Wayne Ellington kom af bekk Grizzlies með 25 stig og Rudy Gay bætti við 21 stigi, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum. Ellington skellti niður 7 af 11 þristum sínum í leiknum og þessi 25 stig eru það mesta sem kappinn hefur skorað í einum og sama NBA leiknum. Chris Bosh var stigahæstur hjá Heat með 22 stig og 8 fráköst. LeBron James gerði svo 20 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.
LA Lakers 103-90 Sacramento Kings
Dwight Howard splæsti í tröllatvennu með 23 stig og 18 fráköst og Kobe Bryant bætti við 20 stigum, 6 fráköstum og 6 stoðsendingum. Hjá Kings var Jimmer Fredett atkvæðamestur komandi af tréverkinu með 18 stig.
Mike D´Antoni verður næsti þjálfari Lakers en hann hefur skrifað undir fjögurra ára samning við félagið. Phil Jackson mun hafa verið með svimandi háar kröfur sem Lakers vildu ekki gangast við en félagið leitaði vitaskuld á mið ,,Big Chief Triangle.”
Önnur úrslit næturinnar
Brooklyn 82-74 Orlando
LA Clippers 89-76 Atlanta
Oklahoma 106-91 Cleveland
Mynd/ Mike D´Antoni er nýr þjálfari Lakers