NBA leikmennirnir Carmelo Anthony og Chris Paul segjast áhugasamir fyrir því að leika í Kína ef ekki leysist úr verkfallinu í NBA deildinni. Báðir leikmennirnir eru á kynningarferðalagi um Kína en fylgjast með verkfallsfréttum úr Bandaríkjunum.
Þar sem Kobe Bryant er að kanna markaðinn í Tyrklandi sögðust bæði Melo og Paul áhugasamir fyrir því að leika í Kína. Melo sagði í viðtali: ,,Hér er mikil saga, stuðningsmennirnir eru frábærir svo af hverju ekki að prófa þetta?“
Já, af hverju ekki? Þessi stóru orð Melo gætu verið til að blíkka gestgjafa þeirra í Kína en í næstu viku munu fulltrúar NBA deildarinnar og fulltrúar leikmannasamtaka NBA hittast í fyrsta sinn á samningafundi síðan verkfallið hófst að því er fram kemur á NBA.com.
Hvað verður af fundinum skal ósagt látið en búist er við að sleggjurnar David Stern og Billy Hunter verði á staðnum og því líkast til eitthvað karpað í ,,Stóra eplinu“ í næstu viku.
Mynd/ Verður Carmelo Anthony í Kína á næstu leiktíð?