Þrátt fyrir að vera í bullandi baráttu um þann stóra í NBA þá virðast ráðamenn hjá Miami Heat aldrei slaka á í sólinni þar fyrir sunnan. Ef marka má fregnir vestra hafs þá líta menn hjá Miami alvarlega til þess að fá Carmelo Anthony til liðs við Miami næsta tímabil. Óhætt er að segja að þéttur hópur þeirra Miami verður nánast loftþéttur ef af verður. Fyrir fáeinum árum voru þeir Chris Bosh og Lebron James fengnir á suðurströndina og síðan þá hefur bæst við Ray Allen.
Þann 23. júní næst komandi þá getur Carmelo Anthony sagt sig frá sínum samningi við NY Knicks. Reyndar eiga þeir Wade, Lebron og Bosh allir einnig möguleik á því í sínum samningi þetta sumarið. Hópurinn í kringum þá er svo bara alveg bærilegur og hefur skilað þeim tveimur titlum á jafn mörgum árum og möguleiki á þeim þriðja lifir enn. Spurningin er sú að ef af verður hverjir munu þá slaka á launakröfum sínum því það er augljóst að þessir þrír menn munu koma til með að gera það og það nokkuð veglega. Í tilviki Carmelo þá þyrfti hann að slá af um 10 miljónum dala af árslaunum og þeir þrír sem fyrir eru hjá Heat um ca 7 miljónir dala fyrir hvert ár. En sagan segir okkur að þegar Miami Heat vill láta eitthvað gerast þá hafa þeir náð því , sbr þegar þeir náðu í Lebron og Bosh.
Þess má einnig geta að þrátt fyrir að ekki hafi farið hátt um það þá hafa SA Spurs gert þetta einnig. Ginobili, Tony Parker og Duncan tóku allir á sig launalækkun síðustu ár til að fá til liðs við sig betri leikmenn og eiga því möguleikan á titlinum.