spot_img
HomeFréttirMeistararnir of stór biti fyrir nýliðana í Röstinni

Meistararnir of stór biti fyrir nýliðana í Röstinni

Skallagrímur sýndi heimamönnum að þeir væru tilbúnir til leiks þegar liðin mættust í Lengjubikar karla í kvöld. Páll Axel lék ekki með Skallagrím í kvöld heldur hvíldi vegna smávægilegrar tognunar. Í fyrsta leikhluta var leikurinn mjög jafn. Þegar komið var á 6. mínútu byrjuðu Grindvíkingar að dragast aftur úr og endaði leikhlutinn 21-27.
Í öðrum leikhluta hélt Skallagrímur áfram og Grindavík fylgdi enn á eftir. Grindavík virtist ekki ætla að halda í við Skallagrím og endaði leikhlutinn 44-52.
 
Í þriðja leikhluta var eins og Grindavík hefði loks mætt til leiks og unnu þeir leikhlutann með 35 stigum gegn 14 stigum Skallagríms. Leikurinn hafði því snarbreyst og var staðan orðin 79-66. Samuel Zeglinski virtist hrökkva í gang og skoraði hann 11 stig heimamanna.
 
Í fjórða leikhluta héldu Grindvíkingar áfram og unnu þann leikhluta með 12 stigum. Leikurinn endaði því 104-79.
 
Sigur Grindvíkinga virtist í höfn eftir þriðja leikhluta. Allir leikmenn Grindavíkur fengu að spila og voru flest allir tilbúnir til leiks þegar inná var komið. Ómar átti góðan leik á meðan Sigurður virtist ekki ná sér á rétt ról. Hann hefur ekki verið að sýna sitt besta í síðastliðnum þrem leikjum. En stigahæstir Grindvíkinga voru Samuel Zeglinski með 22 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. Aaron Broussard var með 21 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Ómar Örn Sævarsson var með 18 stig og 6 fráköst og Jóhann Árni þar á eftir með 17 stig og 5 stoðsendingar.
 
Skallagrímur virtust hafa sprengt sig í fyrri hálfleik leiksins þar sem þeir náðu ekki að halda leiknum jöfnum og drógust hratt aftur úr. Hjá Skallagrímsmönnum var Carlos Medlock stigahæstur með 21 stig og 5 stoðsendingar. Haminn Quaintance með 18 stig og 13 fráköst. Trausti Eiríksson með 11 stig og 7 fráköst.
 
Páll Axel eftir leikinn:
 
,,Þetta var flott framlag og var flott framan af. Hefðum átt að spila betur, hægt að segja að það vantaði  stóra leikmenn þar sem þeir væru með fullt af flottum bakvörðum,” sagði Páll eftir leik. Hann taldi alltaf leiðinlegt að horfa á sem leikmaður og honum hefði þótt gaman að spila þennan leik. Þegar Páll Axel var spurður út í hvort hann teldi þá mætast í úrslitakeppninni talaði hann um að mæta bara í næsta leik og vinna hann. Vildi ekki vera hugsa of mikið um framtíðina.
 
 
Mynd úr safni – Davíð Þór: Zeglinski gerði 22 stig fyrir Grindavík í kvöld
Umfjöllun/ Jenný Ósk 
Fréttir
- Auglýsing -