spot_img
HomeFréttirMeistaramánuður

Meistaramánuður

 

Undirritaður hefur verið beðinn að henda fram pistli á nýjan leik en það ku vera orðið ansi langt síðan síðasti pistill var hripaður niður. Ástæðan fyrir þessari pistlaþurrð er einföld. Ég hef nánast ekkert fylgst með íslenskum körfubolta í vetur enda nær áhugasvið mitt ekki yfir körfubolta sem er leikinn á gæða leveli sem ég persónulega hefði getað spilað á þegar ég var 193 cm og 73 kg kraftframherji hjá Keflavík. Ef ég hefði verið til sölu í Kjöt&Fisk á þessum árum er ansi líklegt að lærin á mér hefðu verið seld sem rifbein og restin bragðefni í súpu…

En nóg um kjötiðnað. Febrúar er meistaramánuður og ber nafn með rentu. Þetta er mánuðurinn sem bikarmeistararnir eru krýndir og í ár kom það í hlut Keflavíkur og KR að taka við titlunum. Það verður seint sagt að það hafi komið á óvart. Keflavíkurstúlkur hafa í sjálfu sér komið á óvart í vetur en það var öllum orðið fullljóst hve góðar þær eru þegar kom að hinni vel heppnuðu bikarúrslitahelgi. Þá fer ótrúleg þrautaganga KR í átt að titlinum líklega í sögubrækurnar frekar en sögubækurnar. Liðið lék bara gegn liðum úr 1. deild fram að úrslitaleiknum þar sem þeir mættu miðlungsliði Þórs. KR-ingum til varnar ber þó að taka það fram að það hefði líklega engu máli skipt hvaða liðum þeir hefðu mætt á leið sinni að titlinum. Þeir hefðu unnið hvaða lið sem sett hefði verið saman enda þekkja þeir fátt annað en sigra. 

Yfirburðir KR-inga í karlakörfuboltanum hljóta annars að vera tilefni til endurskoðunar á fyrirkomulagi úrslitakeppni Domino´s deildar karla. Hér eru tvær hugmyndir:

1.    Öll lið í deildinni fá að bæta við sig einum erlendum leikmanni þegar kemur að úrslitakeppninni. Þannig skapast meiri skemmtun og einvígin við KR verða meira spennandi og enda svo með sigri KR…
2.    Aðeins fjögur lið komast í úrslitakeppnina en KR situr hjá. Þau lið sem komast úr þessum 4-liða úrslitum sameina svo krafta sína í einu „súperliði“ sem mætir KR í úrslitaeinvígi og tapa…

Í lokin vill ég biðja fólk sem er við það að fá taugaáfall vegna blammeringa minna um íslenskan körfubolta hér að ofan að anda rólega. Þessi skrif eru tilraun til að endurskrifa söguna með þeim hætti að ég líti betur út, þ.e. að ástæða þess að ég vermdi tréverkið á sínum tíma hafi verið vegna gæða körfuboltans en ekki gæðaleysis míns. Eru þessi skrif því tilraun til að moka yfir þá skitu auk þess að vera djók… samt ekki!

 

Fréttir
- Auglýsing -