Körfuboltasamfélagið í Mosfellsbæ er ört vaxandi og á sunnudag hefur meistaraflokkur Aftureldingar í körfubolta vegferð sína í 2. deild Íslandsmótsins þegar sá flokkur er endurvakinn hjá félaginu. Fyrsti leikur er gegn Uppsveitum í N1 höllinni að Varmá kl. 14.00 komandi sunnudag 22. september.
Nokkur ár eru síðan Afturelding tefldi fram meistaraflokki og spennandi verður að sjá hvernig þeim tekst að fóta sig í deildinni í ár. Ákvörðun um að fara í þessa vegferð má samkvæmt fréttatilkynningu félagsins fyrst og fremst rekja til þess að yngri flokka starfinu hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum og gríðarleg aukning hefur verið í flestum yngri flokkum. Samkvæmt félaginu er það staðföst trú stjórnar og þjálfara deildarinnar að með góðu og heilbrigðu yngri flokka starfi og metnaarfullu afreksstarfi sé hægt að bjóða upp á flott verkefni í heimabyggð í meistaraflokki.
Afturelding kynnir hóp sinn fyrir komandi tímabil þar sem 8 uppaldir Mosfellingar munu taka slaginn með þeim. Nokkrir þeirra að koma til baka frá öðrum félögum á meðan aðrir eru að taka upp þráðinn aftur eftir hlé frá yngri flokkum og enn aðrir taka slaginn með okkur í fyrsta skipti. Þessir leikmenn eru (upptalning frá vinstri á mynd) :
Bergsveinn Kári Jóhannesson f.2006 kemur heim frá ÍR
Anton Örn Bjarnason f.2005 , Mosfellingur
Eiríkur Karlsson f.2006 , kemur heim frá ÍR
Magnús Gunnar Gíslason f.2003, Mosfellingur
Magni Fannar Jónsson, f.2006 , kemur heim frá Fjölni
Markús Ingvarsson, f.2005 Mosfellingur,
Bragi Snær Hauksson, f. 2007 kemur heim frá Fjölni
Hlynur Logi Ingólfsson f.1999, kemur heim frá Fjölni (vantar á myndina)