spot_img
HomeFréttirMeiðsli og veikindi herja á leikmenn

Meiðsli og veikindi herja á leikmenn

 

Þrátt fyrir að almennt vilji lið síður en svo bera fyrir sig afsakanir með leikmenn í meiðslum eða veikindi þá segjum við hinsvegar frá því að í dag og kvöld mæta lið til leiks að vissum hluta löskuð.  Hjá Keflavík sem fyrr þá er Emelía Gunnarsdóttir frá vegna krossbandaslita og nú í síðasta deildarleik meiddist Þóranna Kika Hodge Carr á hné og er sem stendur óvitað hversu alvarleg þau meiðsli eru en þó ljóst að hún spilar ekki í kvöld.

 

Ofaní þetta hefur hin árlega flensa herjað grimmilega á Keflavíkurliðið og þó nokkrir leikmenn legið í flensu með yfir 39 stiga hita síðustu daga.  Flensan gerði ekki greinarmun á leikmönnum og þjálfara og fyrr í vikunni steinlá Sverrir Þór Sverrisson einnig fyrir flensunni.  Sverrir Þór þjálfari sagði í samtali að vissulega hefðu veikindi hrjáð liðið í vikunni. "Það verða allavega 12 í búning og ég geri ráð fyrir að allar verði með nema þá auðvitað Þóranna og Emelía.  Það æfðu allar í gær nema Thelma (Dís Ágústsdóttir) en hún verður með í kvöld."

 

Kollegi Sverris hjá Snæfell, Ingi Þór Steinþórsson tók í svipaðan streng í samtali.  "Við mætum með fullmannað lið, 12 stúlkur í búning. Ég er með þrjár hnjaskaðar en þær verða með. Þær bíta bara á jaxlinn." sagði Ingi Þór í samtali.  

 

Hjá Skallagrím hefur Sigrún Sjöfn Ámundadóttir verið að kljást við meiðsli síðan hún fór úr axlarlið í leik á móti Val fyrir áramót. Sigrún staðfesti hinvegar við Karfan.is að hún yrði með í kvöld. 

 

Hallgrímur Brynjólfsson sagði hinsvegar að allir sínir leikmenn væru heilir heilsu og tilbúnar í slagsmál dagsins. 

Fréttir
- Auglýsing -