{mosimage}
(María Ben Erlingsdóttir)
María Ben Erlingsdóttir er nýkomin heim frá Ítalíu þar sem hún tók þátt í B-deild Evrópukeppninnar í körfuknattleik. Þrátt fyrir að íslenska liðið hefði hafnað í 11. sæti í mótinu kom María ekki tómhent heim.
„Ég er búin að fá tilboð frá tveimur háskólum í Bandaríkjunum um að koma og spila með þeim með námi tímabilið 2007-08,“ sagði María í samtali við Víkurfréttir en hún vakti nokkra athygli á Ítalíu þar sem hún var níundi stigahæsti leikmaðurinn í mótinu.
„Þetta var skemmtileg ferð sem maður gleymir aldrei og það er mikill heiður að fá að spila með landsliðinu,“ sagði María sem lék í stöðu miðherja fyrir Íslands hönd. „Á móti Úkraínu lék ég vörn á tveggja metra háa stelpu og það gekk ágætlega,“ sagði María sem mun reyna eftir fremsta megni að ljúka námi við FS á næsta skólaári svo hún geti haldið til Bandaríkjanna í nám. María leikur því áfram á næstu leiktíð með Keflavík og þær ætla sér að endurheimta Íslandsmeistaratitilinn af Haukakonum. „Við ætlum að taka Haukana í ár og það verður spennandi að sjá hvað Jonni þjálfari gerir með liðið,“ sagði María og gerði ráð fyrir því að Keflvíkingar myndu ráða til sín erlendan leikstjórnanda og ef svo fer þá verður það hlutverk Maríu í Keflavíkurliðinu að kljást við erlendu miðherja deildarinnar.
Mynd og viðtal af www.vf.is