spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaMeð slitin krossbönd

Með slitin krossbönd

Einn efnilegasti leikmaður landsins Kristófer Breki Björgvinsson hefur lokið leik og mun missa af næsta árinu eftir að hafa slitið krossbönd á dögunum. Kristófer sem leikur með Ármanni í 1. deildinni á venslasamningi frá Haukum sem er uppeldisfélag hans.

Tilkynningu Ármenninga má finna hér að neðan:

Þær ömurlegu fregnir bárust í morgunsárið að Kristófer Breki Björgvinsson leikmaður okkar er með slitið krossband eftir meiðsli sem hann hlaut í leik tvö gegn Selfossi. Kristófer átti stórbrotinn fyrri hálfleik í leiknum skoraði 24 stig og spilaði frábæran varnarleik.

Kristófer kom til liðsins snemma á tímabilinu á venslasamningi og hefur spilað frábærlega. Mikill stígandi hefur verið a hans leik og vorum við spennt að sjá hann blómstra í úrslitakeppninni.

Því miður er tímabilinu lokið og verður Kristófer frá í allt að ár. Það er fyrst og fremst svekkjandi fyrir þennan efnilega leikmann að þurfa að sitja hjá í þann tíma og missa af þeim baráttum sem framundan eru með félagsliðum og landsliðum. Við erum stolt af því að hafa haft Kristófer í okkar liði og munum styðja hann í þeirri endurhæfingu sem framundan er.

Þrátt fyrir þetta áfall er engan bilbug á okkur Ármenningum að finna, við ætlum að vinna úrslitakeppnina sem framundan er. Byrjum í Höllinni annað kvöld.

Sendum Kristófer okkar allra mestu batakveðjur og vonumst til að sjá hann á ný í Ármannstreyju

Fréttir
- Auglýsing -