Shannon McCallum fór hamförum í kvöld þegar KR marði Fjölni 74-69. Botnliðið úr Dalhúsum gerði nokkrar heiðarlegar tilraunir til að taka stigin tvö í kvöld en McCallum mátti ekki heyra á það minnst með 43 stig, 14 fráköst, 3 stoðsendingar, 5 stolna bolta og 5 varin skot! Fjölniskonur gerðu í kvöld einfaldlega of mikið af mistökum til að sleppa með sigur úr DHL Höllinni en gular voru með 22 tapaða bolta og fóru illa með góð færi í KR teignum.
Njarðvíkingarnir Ína María Einarsdóttir og Eyrún Líf Sigurðardóttir voru báðar mættar með sínum liðum til leiks í kvöld. Eyrún í gulu hjá Fjölni en Ína gekk nýverið í raðir KR-inga. Eyrún lét til sín taka strax í fyrsta leikhluta og skoraði sín fyrstu Fjölnisstig af vítalínunni.
Heimakonur í KR mættu þó beittari til leiks og byrjuðu snemma á því að skella tveimur þristum yfir svæðisvörnina sem Fjölniskonur mættu með í kvöld. Fleiri urðu þristarnir ekki í fyrri hálfleik og gestirnir úr Dalhúsum fóru að láta til sín taka. Fjölniskonur gerðu 9-0 áhlaup í lok fyrsta leikhluta sem lauk með þriggja stiga körfu frá Britney Jones um leið og tíminn rann út og Fjölnir leiddi 18-22 að loknum fyrsta leikhluta.
Bæði lið voru afar mistæk í öðrum leikhluta, lítið var skorað fyrstu fimm mínúturnar en KR leiddi þær 5-2 og byrjuðu fyrstu sex mínútur annars leikhluta með 10-2 áhlaupi sem lauk með þriggja stiga körfu frá Heiðrúnu Hörpu Ríkharðsdóttur.
Shannon vaknaði til lífsins undir lok annars leikhluta og linnti svo ekki látum fyrr en eftir fullar 40 mínútur. Fjölnir leiddi í hálfleik 32-34 þar sem Britney Jones var komin með 15 stig hjá Fjölni en McCallum með 17 stig og 10 fráköst í liði KR.
Jafnt var á öllum tölum í þriðja leikhluta, vörn KR var þó betri og Fjölniskonur stóluðu á að Britney tæki að sér stigaskorið og löngum gekk það ekki nægilega vel þar sem sóknarleikurinn hjá gulum var orðinn fyrirsjáanlegur. Klaufaleg mistök sáust á báða bóga en þær Bergdís Ragnarsdóttir og Hugrún Eva Valdimarsdóttir áttu fínar rispur hjá Fjölni en það var KR sem lokaði leikhlutanum betur og leiddu 50-45 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Í fjórða leikhluta hélt Shannon áfram að hrella Fjölni og heimakonur í KR fóru langt á sóknarfráköstunum í kvöld en röndóttar tóku fleiri sóknarfráköst heldur en varnarfráköst (26-25) og gular því oft að sætta sig við að vera í 35-40 sekúndur í vörn í senn.
Fjölnir skoraði ekki síðustu þrjár mínúturnar í þriðja leikhluta og ekki fyrstu tvær og hálfa mínútuna í fjórða leikhluta. Þarna liðu tæpar sex mínútur án þess að gestirnir næðu að skora og KR náði muninum upp í tíu stig. Fjölnir beit frá sér á nýjan leik og minnkaði í 62-58 en lengra komust þær ekki.
Björg Guðrún Einarsdóttir skellt þrist yfir Fjölniskonur og breytti stöðunni í 65-58 og KR sleppti ekki takinu eftir það og kláraði leikinn 74-69.
KR-ingar eru sem fyrr í 4. sæti deildarinnar og nú með 20 stig en Fjölnir áfram á botninum með 4 stig, enn eru 20 stig í pottinum eða 10 leikir og til að forðast 1. deildina eru enn sex stig hjá Fjölni í Grindavík og Njarðvík og því ýmislegt sem þarf að koma til hjá gulum í baráttunni við falldrauginn.