spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaMatthías: Við ætlum bara að mæta og vinna þá

Matthías: Við ætlum bara að mæta og vinna þá

Matti var ósáttur með tapið gegn Stjörnunni en hefur tröllatrú á sigri í oddaleik:

Stjarnan skorar 90 stig, 26 stig í fyrsta…ÍR vinnur Stjörnuna sennilega frekar sjaldan í leikjum þar sem stigaskorið er í einhverjum 90+ stigum ekki satt?

Já! Það er ekkert leyndarmál að þetta var ekki sú týpa af leik sem við fýlum. Varnarlega vorum við bara ekki nógu góðir. Þeir settu upp nýtt leikkerfi fyrir Ægi sem þeir notuðu ítrekað og virkaði það rosalega vel. Ég gef honum hrós, hann var frábær í kvöld, við réðum illa við hann. Þeir fundu bara mjög góðar lausnir á því hvernig við vorum að dekka þá í síðasta leik. Nú heldur skákin bara áfram, við þurfum að koma til baka með okkar lausnir, koma okkar vilja fram. En sóknarlega vorum við líka mjög slappir. 

Já…þetta var ekki að ganga vel á báðum endum hjá ykkur…eiginlega ótrúlegt hvað ykkur tókst að hanga inn í leiknum…

Við náðum í upphafi þriðja loksins smá takti, alla vega var varnarleikurinn góður í einhverja stund og við náðum að minnka í fjögur…en einhvern veginn náðu þeir alltaf að svara og við gerðum einhver mistök…tapaðir boltar t.d…

Já, þið töpuðuð þremur boltum í röð á síðustu þremur mínútunum…

Við megum ekki við því að tapa boltum þegar við erum að nálgast þá þegar við lendum undir… en við lögum það bara.

Er enn full trú í liðinu?

Já það er mikil trú! Við erum búnir að fara í einn oddaleik í ár og okkur fannst það tryllt, ógeðslega skemmtilegt og við unnum hann. Við vorum rétt stilltir og flottir í þeim leik. Þannig að við ætlum að finna lausnir á því sem þeir voru að gera í dag, koma okkar vilja fram og vinna á fimmtudaginn. 

Ég spyr náttúrulega eins og algert fífl hvort það sé trú í ÍR-liðinu…þið unnuð Njarðvík tvisvar í Njarðvík og þegar búnir að vinna einn í Garðabænum! Af hverju ekki að hafa trú…en ég er alltaf svolítið svartsýnn fyrir ykkar hönd….

Já…takk fyrir það…

… og þegar ég spái ykkur sigri þá tapið þið alltaf, eins og í kvöld, og öfugt! Ég gæti gert ykkur þann greiða að spá ykkur tapi í oddaleiknum…

Já..það væri flott! Skrifaðu einhverja grein um að við getum ekki neitt og erum að fara að tapa, það væri geggjað! 

En neinei..við erum mjög spenntir fyrir oddaleiknum, við ætlum að finna lausnir á því sem þarf að finna lausnir á og við ætlum að hafa gaman af þessu. Við ætlum að hlaupa aðeins á þá, lemja aðeins á þeim og spila alvöru vörn. Sóknarlega þurfum við að svinga boltanum og hreyfa hann aðeins betur. Við ætlum bara að mæta og vinna þá!

Viðtal: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -