Körfuknattleiksdeild ÍR var í dag að ganga frá samkomulagi við Matthías Orra Sigurðarson um að leika með félaginu næstu tvö árin. Þetta staðfesti Kristján Pétur Andrésson, formaður kkd ÍR í samtali við Karfan.is.
"Matthías er hjarta liðsins og gríðarlega mikilvægur leikmaður sem við byggjum í kring um," sagði Kristján en hann er enn að vinna í framlengingu við aðra leikmenn liðsins sem hann segir forgangsatriði áður en leitað verður út á markaðinn. Kristján segir það að ná að semja við Matthías muni auðvelda alla vinnuna við hitt.
Næsta leiktíð verður því sú þriðja hjá Matthíasi í bláu og hvítu frá árinu 2014 en hann brá sér af landi brott veturinn 2015-2016 til að spila í Bandaríkjunum. Matthías lauk yfirstandandi leiktíð með 19,9 stig að meðaltali í leik og var 10. stigahæsti í deildinni. Hann var einnig sjötti í deildinni í stoðsendingum með 5,1 í leik og fjórtándi í röðinni í framlagi með 18. Frábær leikmaður í alla staði.
Matthías var mjög brattur í spjalli við Karfan.is. "Já, ég er rosalega spenntur. Held að allir í kringum félagið séu klárir í að gera betur næsta ár en þetta seinasta tímabil, þar á meðal ég." ÍR datt út í fjórðungsúrslitum gegn Stjörnunni eftir þrjá leiki sem allir hefðu getað endað á hvorn veginn.
"Vonandi smellur þetta að alvöru hjá okkur, og þá held ég að við gætum orðið virkilega hættulegir. Það er komin góð stemming í Breiðholtið og maður finnur fyrir auknum áhuga á körfubolta í hverfinu."
Hvernig líst Matthíasi á hópinn fyrir næsta ár?
"Vonandi byrjum við á að halda í núverandi leikmannahóp og sjá svo hvort það þurfi að breyta og bæta þegar það er búið að ganga frá því," sagði bakvörðurinn knái. "Ef Svenni [Claessen] gefur ekki frá sér þurra og leiðinlega fréttatilkynningu strax í fyrramálið að hann ætli sér að taka slaginn í eitt ár enn með bróðir sínum verð ég frekar dapur verð ég að segja," bætti Matthías við og glotti um tönn.
Hvar þarf að bæta liðið sérstaklega?
"Ég held að við þurfum fyrst og fremst að ná að virka núverandi hóp aðeins betur og þá erum við í fínu standi. Alltaf sem bætist þar ofan á verður plús en fyrst og fremst þurfum að við einfaldlega að ná að koma okkar mönnum betur í gang."