Íslandsmeistarar síðustu sex ára, KR ætla sér stóra hluti á næstu leiktíð og að verja þann stóra enn eitt árið. KR-ingar hafa nú endurheimt tvo leikmenn og landað stærstu bitunum á markaðnum. KR hafði boðað til blaðamannafundar nú kl 15 en Matthías Orri tilkynnti stuðningsmönnum ÍR á Facebook frá þessu fyrir stundu.
Bræðurnir Jakob Örn Sigurðarson og Matthías Orri Sigurðarson hafa nefnilega samið við lið KR um að leika með liðinu á komandi leiktíð. Samningur Matthíasar við KR er til tveggja ára en samningur Jakobs er til eins árs.
Jakob Örn snýr heim eftir mörg ár í atvinnumennsku. Hann lék síðast á Íslandi árið 2009 þar sem hann varð Íslandsmeistari með KR. Síðustu ár hefur hann leikið í Svíþjóð og nú síðast með Boras Basket þar sem hann fór alla leið í úrslitaeinvígi sænsku úrvalsdeildarinnar. Jakob á að baki 92 landsleiki og verið í stóru hlutverki í því liði í gegnum tíðina.
Einnig er nú ljóst að Matthías Orri Sigurðarson hefur ákveðið að söðla um og yfirgefa lið ÍR þar sem hann hefur leikið síðustu ár. Matthías leiddi lið ÍR alla leið í úrslit Íslandsmótsins þar sem liðið tapaði gegn einmitt KR í úrslitaeinvíginu. Síðustu ár hefur Matthías verið gríðarlega stór hluti af uppbyggingu ÍR sem toppaði í bili er liðið komst í úrslit.
Matthías hefur verið meðal bestu leikmanna Dominos deildarinnar síðustu ár en hann var í úrvalsliði mótsins á nýliðnu tímabili. Það verður skellur fyrir ÍR að missa þennan sterkan leikmann en mikilll styrkur fyrir KR sem virðist ætla að gera sterka atlögu að sjöunda Íslandsmeistaratitilinum í röð.
Þeir bræður eru báðir uppaldir hjá KR en hafa ekki leikið saman með félaginu og því um spennandi tímamót að ræða. Nánari fregnir og viðtöl við þá bræður eftir undirskrift eru væntanleg á Körfuna síðar í dag.