Matt Brunell er nýjasti liðsmaður FSu liðsins í baráttunni í 1. deild karla. Matt er 25 ára gamall miðherji/kraftframherji frá Bandaríkjunum, sem lék með 1. deildar háskólanum Eastern Washington og síðan eitt keppnistímabil í Hondúras. Hann hafði ekki spilað körfubolta í eitt ár, þegar honum bauðst að koma til Íslands og spila með FSu-liðinu. En hvernig leist honum á fyrsta leikinn sinn á Íslandi?
„Þetta var skemmtilegt, ég er feginn að vera byrjaður aftur, í þessu góða liði. Okkur gekk ágætlega að útfæra sumt af því sem Olson þjálfari hefur verið að kenna okkur alla vikuna, sérstaklega í varnarleiknum svo við getum keyrt upp hraðann og skorað nokkrar auðveldar körfur. Svo var gaman að sjá allt fólkið og stuðninginn í stúkunni, þannig að ég er mjög ánægður með þennan fyrsta leik“.
Liðið virkaði nokkuð ryðgað í byrjun?
„Já, það var sama sagan og gegn Þór fyrir norðan í síðasta leik. Þetta er einmitt eitt af því sem Olson hefur verið að segja við okkur, við verðum að spila á fullu frá byrjun og í 40 mínútur. Við gerðum okkar besta en vissulega er liðið ekki fullslípað ennþá og margt sem þarf að vinna í. En við náðum í leiknum nokkrum mjög góðum köflum þar sem þeir skoruðu ekki, t.d. í þriðja leikhluta þegar þeir skoruðu bara 7 stig. Við verðum smám saman betri ef við höldum áfram að leggja okkur fram á æfingum“.
Hvernig líst þér á boltann sem er spilaður hér, miðað við það sem þú þekkir til?
„Þetta er skemmtilegur körfubolti, meiri hraði í leiknum og miklu meiri liðsbolti. Þar sem ég lék var þetta mest einn á einn en hér gefa menn sér tíma í a.m.k. 5-6 góðar sendingar til að finna rétta skotið“.
En þá er það mikilvægasta spurningin, svona í lokin: How do you like Iceland?
„Þetta lítur bara vel út, heitar laugar og sætar stelpur!! Nei, nei, við fórum í fjallgöngu um daginn og náttúran hér er falleg. Ég vonast til að sjá meira af henni sem fyrst og hlakka til að kynnast fólkinu hérna“.
Mynd/ Hermann Snorri
Viðtal/ Gylfi Þorkelsson