Blaðamaður, í leit að nýjum myndum á netinu af Martin Hermannssyni í treyju nr. 15 fyrir LIU háskólann fyrir frétt sem hann er vinna um hann, rakst fyrir tilviljun á spjallþráð sem er tileinkaður honum einum og myndum af honum.
Í fyrstu vakti þetta enga furðu. Drengurinn er ekki beint að sprengja neina spegla með útliti sínu og stelpurnar augljóslega vitlausar í hann á þessu spjalli. Þá áttaði blaðamaður sig á að allar athugasemdirnar voru frá karlmönnum eða í það minnsta notendum með karlkyns nöfn.
Ekki nóg með það því notendur kunnu líka vel að meta Kristófer Acox félaga Martins sem er með honum á einni myndinni. Skiljanlega. Þetta eru myndarlegir drengir og geta vakið áhuga karla jafnt sem kvenna.
Þegar blaðamaður hafði svo samband við Martin hló hann sig máttlausan og hafði gaman af. "Það er ekki öll vitleysan eins" sagði Martin skellihlæjandi.