Alba Berlín tók forystu í undanúrslitum Eurocup eftir frábæran sigur 102-97 á MonaBanc Andorra. Martin var líkt og oft áður í lykilhlutverki fyrir þýska félagið.
Eitt lið var á vellinum í fyrri hálfleik en staðan eftir hann var 59-41 fyrir Alba Berlín. Berlínarmenn voru með 7 af 9 þriggja stiga skotum sínum ofan í og ekkert virtist geta stöðvað þá.
Ótrúleg barátta Andorramanna í seinni hálfleik gerði það að verkum að leikurinn varð algjör naglbítur. Morabanc minnkaði muninn niður í tvö stig þegar hálf mínúta var eftir af leiknum. Þá steig okkar maður upp og náði í frábæra sigurkörfu með 27 sekúndur eftir af klukkunni og fékk víti að auki.
Martin kláraði þar með leikinn og steig upp á ögurstundu. Hann endaði með 10 stig og 7 stoðsendingar í þessum stórskemmtilega leik.
Alba Berlín tekur þar með forystu í undanúrslitaeinvígi liðanna í Eurocup. Sigra þarf tvo leiki til að komast í úrslit en næsti leikur fer fram á fimmtudag í Andorra. MonaBanc Andorra eru ósigraðir á heimavelli og því ljóst að um verðugt verkefni er að ræða fyrir Martin og félaga.