Háskólaboltinn sefur ekki og þeir ekki heldur sem hér á landi fylgjast með gangi mála þar á bæ vestanhafs. Nokkrir leikir voru á hlaðborðinu í nótt og það var heldur mjótt á munum í leikjum næturinnar. Martin kláraði sigur fyrir LIU en Kristinn Pálsson og félagar í Marist lágu í tvíframlengdum slag.
Wagner 70-71 LIU
LIU Blackbirds vann í nótt spennusigur í bandaríska háskólaboltanum þegar liðið heimsótti Wagner skólann. Martin Hermannsson gerði sigurstig LIU í leiknum af vítalínunni þegar tvær sekúndur lifðu leiks! Martin var með 9 stig í leiknum og 5 stoðsendingar en stigahæstur hjá LIU var Aakim Saintil með 27 stig. Leikurinn í nótt var sá fimmti hjá LIU í NEC riðlinum og er liðið í 6.-8. sæti með 2 sigra og 3 tapleiki.
Bryant 61-59 St. Francis Brooklyn Terriers
Hér var einnig hörku leikur á ferðinni, liðin skiptust 20 sinnum á forystunni og átta sinnum var jafnt en kumpánarnir Dagur Kár Jónsson og Gunnar Ólafsson urðu samt að fella sig við tap þetta sinni þar sem Bryant splæsti í sigurkörfu með sekúndu til leiksloka. St. Francis þá eins og LIU með 2-3 stöðu í NEC riðlinum en Bryant Bulldogs á toppi NEC með 4-1 stöðu. Gunnar Ólafsson lék ekki með í leiknum vegna smávægilegra nárameiðsla og Dagur Kár Jónsson náði ekki að skora á þeim 19 mínútu sem hann spilaði en tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.
Mercer 69-65 Furman
Kristófer Acox hafði hægt um sig að þessu sinni, var í byrjunarliði Furman en lék aðeins í 10 mínútur og tók þar eitt frákast og gaf eina stoðsendingu en ekkert skot lét hann frá sér þennan leikinn. Stigahæstur í liði Furman var Stephen Croone með 27 stig. Eftir leikinn í nótt er Furman í 5. sæti SoCon riðilsins með 3 sigra og 2 tapleiki.
Rider University 102-100 Marist
Kristinn Pálsson gerði 15 stig í liði Marist, tók 6 fráköst, stal 1 bolta og gaf 1 stoðsendingu á þeim 44 mínútum sem hann spilaði í leiknum. Stigahæstur í liði Marist var Khallid Hart með 36 stig. Leikurinn fékk endingu á vítalínunni þar sem heimamenn í Rider fengu víti þegar sekúnda lifði leiks. Tapið í nótt sveið en það var botnslagurinn í MAAC-riðlinum og því eru Rider og Marist á botni riðilsins með einn sigur og fimm tapleiki til þessa.