Tímabilið er búið hjá Martin Hermannssyni og LIU Brooklyn skólanum. Vorfríið eða "Spring Break" eins og það er kallað vestanhafs stendur yfir þessa vikuna og brunaði Martin suður til Flórída í frí í tilefni af því. Karfan.is náði tali af stráknum í sólinni og fékk hann til að gera upp tímabilið fyrir okkur.
"Tímabilið í ár var svona upp og niður. Það vantaði meiri stöðugleika. Við komumst aldrei almennilega á ról. Vorum að vinna svona 2-3 leiki í röð og svo tapa næstu 2."
LIU lauk tímabilinu í 6. sæti NEC riðilsins og mættu Sacret Heart í fjórðungsúrslitum NEC keppninnar, en féllu svo út úr keppni eftir tap gegn Wagner skólanum sem vermdi fyrsta sætið.
"Það var fúlt að fá ekki heimaleikjarétt í úrslitakeppninni, sérstaklega þar sem að við sópuðum liðinu sem að endaði í fyrsta sæti."
Martin getur þó gengið sáttur frá borði þar sem hann átti stórkostlegt tímabil fyrir LIU í vetur. Þrisvar sinnum valinn leikmaður vikunnar og að lokum valinn í lið ársins að leiktíð lokinn.
"Markmiðið í ár var bara að gera betur enn í fyrra," bætti Martin við. "Bæta minn leik og svo framvegis. Það gekk upp, liðið vann fleiri leiki yfir heildina og við komumst lengra í úrslitakeppninni. Að sama skapi finnst mér ég hafa bætt mig, ekki bara í einhverjum einum þátt heldur bara í öllu. Auðvitað er samt súrt að hafa ekki farið alla leið."
Martin endaði með 16,2 stig að meðaltali í leik og 4,7 stoðsendingar. Þar að auki 4,3 fráköst og 1,8 stolna bolta. Allt miklar hækkanir frá árinu áður. Hlutfall stoðsendinga á móti töpuðum boltum var 2,147 á móti 1,370 árið áður. Martin var þriðji hæsti í mínútum spiluðum fyrir innan NEC riðilsins og einnig í stolnum boltum. Næstefstur innan riðilsins í stoðsendingum og vítanýtingu og svo lengi mætti telja.
Kom hins vegar Martin eitthvað á óvart á þessari leiktíð?
"Það var nú ekkert mikið sem að kom mér á óvart, þar sem að ég vissi nákvæmlega hvað ég væri að fara út í. Eina kannski var það að maður áttaði sig á því hversu gott var að hafa Elvar með sér." Þar á Martin við Elvar Friðriksson, einn besta vin og fyrrum liðsfélaga sinn hjá LIU, en hann færði sig til Barry háskólans í Miami fyrir veturinn.
Sumarið ætlar Martin að nýta í aukaæfingar og þá sérstaklega lyftingar. "Bæta styrk og sprengikraft. Svo verður auðvitað markmiðið að vera valinn í landsliðið sem hefur nóg fyrir stafni í sumar." Þar að auki ætlar Martin bara að njóta þess að vera heima með fjölskyldu og vinum.
Hvað varðar næsta vetur segist Martin ekki vera búinn að ákveða neitt. "Ég held bara öllum möguleikum opnum í sambandi við framhaldið."
En að íslensku Domino's deildinni, þá sér Martin hana hafa galopnast við að Ægir Þór hafi stokkið yfir til Spánar til að klára leiktíðina þar.
"Brottför Ægis gerir deildina töluvert meira spennandi. Ég sá ekkert lið vinna KR með Ægir innanborðs en núna getur allt gerst. Haukar og Tindastóll eru að stíga upp á réttum tíma, svo er ekkert hægt að afskrifa Njarðvík með besta leikmann landsins innanborðs," en þar vísar Martin til Hauks Helga Pálssonar. "Ég hef samt mikla trú á mínum mönnum og hlakka til að sjá Þóri og Bjössa frá fleiri mínutur og hvort þeir stígi upp nú þegar að Ægir er farinn."
Martin veit svo að gömlu mennirnir sjái svo um rest. "Pavel, Helgi, Brynjar, Darri og Craion eru ekkert að byrja í þessu, þeir vita hvað þarf."