Njarðvík og Keflavík buðu upp á enn einn spennuslaginn sín á milli og að þessu í 32-liða úrslitum VÍS-bikarkeppni karla. Skemmst er frá því að segja að Keflvíkingar eru komnir áfram eftir framlengdan naglbít. Lokatölur 108-109 Keflavík í vil þar sem Marek Dolezaj tróð sigrinum niður fyrir Keflavík. Remy Martin var þó maður vallarins með 42 stig og 11 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Chaz Williams atkvæðamestur með 33 stig, 11 fráköst og 9 stoðsendingar.
Leikurinn fór vel af stað þar sem Remy Martin bar uppi sókn Keflvíkinga. Staðan 22-27 fyrir gestina og Martin með 13 stig í fyrsta leikhluta og Marek 9 en Milka með 6 í liði heimamanna og Maceij Baginski 5 komandi ferskur af bekknum.
Í öðrum leikhluta létu heimamenn vel í sér heyra, fannst halla á sig og villurnar hrönnuðust inn. Það stöðvaði þá þó ekki í því að setja 31 stig í leikhlutanum og leiða 53-52 í hálfleik. Fjörugur fyrri hálfleikur, mikið skorað og varnir beggja hefðu vissulega getað verið þéttari.
Luke Moyer skoraði flautukröfu fyrir Njarðvíkinga undir lok fyrri hálfleiks en eftir nánari athugun í vélbúnaði RÚV komust dómarar leiksins að þeirri niðurstöðu að karfan væri ekki gild og því staðan 53-52 í leikhléi.
Remy Martin með 13 stig og Marek 11 hjá Keflavík í hálfleik en Milka með 13 hjá Njarðvík og Chaz 10 en Chaz og Elías voru báðir komnir með þrjár villur eftir fyrri hálfleikinn sem og Igor Maric í liði Keflavíkur.
Njarðvíkingar höfðu áfram smá forystu að loknum þriðja leikhluta 77-73 þar sem Chaz lokaði leikhlutanum fyrir Njarðvík. Hann gerði 13 stig í þriðja leikhluta og hinumegin var Jaka Brodnik að taka flottar rispur.
Með Chaz á fjórum villum varð hann að fara sér varlega á varnarendanum og eftir því sem leið á leikinn fór Remy að taka æ fastari tök á vellinum uns að lokum héldu honum engin bönd.
Það var allt í járnum í fjórða leikhluta en þegar 33 sekúndur voru eftir af leiknum komust heimameinn í 94-91. Remy Martin komst inn í sendingu hjá Cahz, Martin brunaði svo fram og gerðist reyndar sekur um tvígrip sem dómarar leiksins sáu ekki. Því næst fann hann Maric sem þakkaði fyrir sendinguna með því að jafna leikinn 94-94. Chaz fékk tækifæri til að gera út um leikinn í lokasókn venjulegs leiktíma en hann tapaði boltanum og tíminn rann út í sandinn og framlenging næst á dagskrá.
Í framlengingunni tók ekkert betra við fyrir hjartveika. Carlos Mateo jafnaði leikinn 100-100 fyrir Njarðvík með þrist og rúmar tvær mínútur eftir. Remy Martin sýningin hélt áfram og kom hann Keflavík í 103-105 með þrist. Njarðvíkingar voru ekki af baki dottnir og komust í 108-107 þegar Chaz skoraði og fékk villu að auki. Keflvíkingar tóku þá leikhlé og fengu innkast við þriggja stiga línuna sóknarmegin og innkastinu lauk með því að Keflvíkingar fundu Marek sem brunaði að körfunni og tróð með tilþrifum 108-109. Ekkert leikhlé í boði og Chaz reyndi erfitt skot sem geigaði og Keflavík fagnaði því sigri.
Frábær leikur, spennandi, mikil barátta og mikið skorað og Keflvíkingar fara í bikarskálina góðu þegar dregið verður í 16-liða úrslit.