spot_img
HomeFréttirMartin: Alltaf gaman að koma sér í sögubækurnar

Martin: Alltaf gaman að koma sér í sögubækurnar

Martin Hermannsson gerði lítið úr afrekum sínum á körfuboltavellinum á miðvikudaginn þegar hann skoraði 22 stig, tók 8 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og stal 5 boltum án þess að tapa einum einasta bolta sjálfur. Afrek sem aðeins stjörnuleikmenn eins og Ben Simmons og Kris Dunn hafa einir í 1. deild NCAA háskólaboltans afrekað – nema hvað þeir töpuðu einhverjum boltum. Martin vildi bara vinna leikinn gegn Sacret Heart.

 

"Það er auðvitað alltaf gaman að eiga góða leiki," sagði Martin í spjalli við Karfan.is í gærkvöldi. "Fyrst og fremst langaði mig bara að gera það sem þyrfti til þess að vinna leikinn. Ég ætlaði mér að passa betur upp á boltann í þessum leik og reyna að opna betur fyrir liðsfélagana mína. Það tókst sem betur fer."

 

"Ben Simmons og Kris Dunn eru samt allt í lagi leikmenn," bætti hann svo við.

 

Martin átti slakan seinni hálfleik gegn St. Francis á laugardaginn var þar sem hann tapaði þremur boltum á mikilvægum augnablikum í leiknum. Sá leikur hefur væntanlega setið í landsliðsmanninum þegar þessi leikur hófst.

 

"Já, alveg klárlega. Ég var mjög svekktur út í sjálfan mig í þeim leik. Sérstaklega í seinni hálfleik. Við þurftum sigur [á miðvikudaginn] til þess að missa ekki af lestinni. Allir eru að vinna alla í þessari deild svo hver sigur er mikilvægur"

 

Hvernig tilfinning er það samt að ná sögulegum árangri og vera nefndur í sömu andrá og leikmenn sem verða líklega í efstu röðum NBA nýliðavalsins næsta sumar?

 

"Ég veit eiginlega ekki hvað maður getur sagt. Ég reyndi bara að spila minn leik en var samt ekkert að hitta neitt sérstaklega vel í fyrri hálfleik, þannig að mér fannst eins og ég hefði getað gert enn betur en jú það er alltaf gaman að koma sér í sögubækurnar."

 

Gengi LIU liðsins í vetur hefur verið upp og ofan. Liðið hefur sigrað 10 leiki en einnig tapað 10 í vetur auk þess að vera 4-5 innan riðilsins. Vefsíðan Big Apple Buckets spáði LIU þriðja neðsta sæti riðilsins í lok leiktíðar. Martin hins vegar blæs á allar svona hrakspár.

 

"Þessar spár eru alltaf að breytast og lítið að marka þær. Okkur var til dæmis spáð topp 3 fyrir tímabilið og erum búnir að vinna 2 af topp 4 liðum í deildinni, svo það er allt hægt. Við erum einum sigurleik frá því að komast í eitt af fimm efstu sætunum svo fjörið er bara rétt að byrja."

 

Næsti leikur LIU er mikilvægur heimaleikur gegn Fairleigh Dickinson en það lið er í þriðja sæti riðilsins sem stendur.

Fréttir
- Auglýsing -