Skallagrímur hefur samið við hinn bandaríska Marques Oliver um að leika með liðinu í fyrstu deild karla.
Oliver ætti að vera körfuknattleiksunnendum á Íslandi þekktur, en hann hefur leikið með nokkrum liðum hér á landi. Upphaflega kom hann til Fjölnis tímabilið 2016-17, þá var hann með Þór á Akureyri tímabilið 2017-18, aftur Fjölni og svo Haukum tímabilið 2018-19.
Með Haukum skilaði hann 20 stigum, 12 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik í Dominos deildinni.
Skallagrímur heimsækir Álftanes í Forsetahöllina kl. 19:15 í kvöld. Marques er kominn með leikheimild, en ekki er ljóst á þessari stundu hvort hann verður með í leiknum eða ekki. Skallagrímur er sem stendur í 6.-8. sæti fyrstu deildarinnar með 4 stig eftir 6 leiki.