spot_img
HomeFréttirMarín Lind var ánægð með fyrsta árið í háskólaboltanum þrátt fyrir að...

Marín Lind var ánægð með fyrsta árið í háskólaboltanum þrátt fyrir að hafa verið mikið frá vegna veikinda “Frábært að vera komin í þessar aðstæður”

Skagfirðingurinn Marín Lind Ágústsdóttir gekk síðastliðið haust til liðs við Arizona Western Matadors í bandaríska háskólaboltanum. Marín er að upplagi úr Tindastóli, en hafði tímabilið áður en hún hélt út leikið með Þór Akureyri í fyrstu deildinni. Þar hafði hún skilað 14 stigum, 4 fráköstum, 4 stoðsendingum og 2 stolnum boltum að meðaltali í leik.

Marín lék á sínum tíma upp yngri flokka Tindastóls, sem í einhver skipti voru þó sameinuð lið Tindastóls og Þórs á Akureyri, þá var hún 15 ára gömul komin í meistaraflokk Tindastóls tímabilið 2018-19. Þá hefur hún einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands, en nú í sumar er hún í 17 leikmanna hóp undir 20 ára liðs kvenna sem keppir bæði á NM og EM.

Í leik fyrir Ísland

Arizona Western er staðsettur í Yuma borga Arizona ríkis Bandaríkjanna og leikur liðið í NJCAA hluta háskólaboltans. Matadors gekk ágætlega á tímabilinu sem var að líða, unnu 21 og töpuðu 9 leikjum.

Karfan hafði samband við Marín Lind og spurði hana aðeins út í þetta fyrsta ár með Arizona Western, hvernig stemningin sé í Yuma og hvað hún hyggist gera í framhaldinu.

Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?

“Mjög spennandi. Þetta tímabil hjá mér úti var frekar skrítið þetta árið og kannski ekki eins hefðbundið og hjá öðrum. En ég veiktist illa af einkirningssótt þrem dögum áður en ég átti að flytja til Arizona og var ófær um að spila körfubolta alla haust önnina sem varð til þess að ég fór ekki út fyrr en í janúar. Ég ákvað því að spila enga leiki með liðinu þetta tímabil til þess að nota ekki heilt ár af “eligibility” fyrir eina önn. Þrátt fyrir að hafa ákveðið að spila ekki þetta tímabil þá flutti ég samt út í janúar, bjó á heimavistinni með liðinu, ferðaðist með í leiki og æfði á fullu. Að vera hluti af háskólaliði í bandaríkjunum eru frábærar aðstæður til þess að bæta sig og hér eru allar í liðinu mættar til að gefa allt í körfubolta og við stefnum allar að svipuðum markmiðum. Mér finnst frábært að vera komin í þessar aðstæður.”

Hvernig er stemningin í Yuma?

“Stemningin í Yuma er góð. Það var ágætlega mætt á körfuboltaleiki, en ekki eins og geðveikin síðustu vikur heima á Sauðárkróki samt. Yuma er þekktur fyrir að vera einn af sólríkustu stöðum heims og var það góð tilbreyting frá Íslandi. Bærinn er frekar rólegur og ekki margt um að vera en við á heimavistinni vorum dugleg að finna okkur ýmislegt að gera og mættum vel á íþróttaviðburði hjá hvoru öðru. Á heimavistinni voru mjög margir International students, til dæmis voru þrettán leikmenn í mínu liði frá ellefu mismunandi löndum. Það bjó klárlega til skemmtilega stemmingu á vistinni og það var gaman að kynnast fólki allstaðar af úr heiminum.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?

“Já, það er klárlega munur á boltanum hérna úti og heima. Leikurinn er hraðari og það er meira um hæfileika og líkamlega getu hjá hverjum og einum heldur en leikskilning og set up plays.”

Hvernig gekk þér á tímabilinu?

“Eins og ég kom inn á hérna fyrir ofan þá keppti ég ekki með liðinu en mér gekk samt heilt yfir vel á þessari önn. Æfði meira en ég hef nokkurn tíman gert, stóð vel í þeim á æfingum og gekk mjög vel í náminu.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Já, mig langar að halda áfram úti í skóla en ég hef ákveðið að kveðja Arizona Western og er að finna mér nýjan stað til að halda þessu ævintýri áfram.”

Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?

“Núna þegar ég er búin að fá kynnast því hvernig það er að vera úti í háskóla og lifa á heimavist er markmiðið fyrir næsta tímabil klárlega að komast loksins almennilega af stað í körfunni.”

Fréttir
- Auglýsing -