Karfan.is náði tali af Margréti Sturlaugsdóttur eftir leik Keflavíkur og Grindavíkur í TM höllinni í gærkvöldi. Keflavík sigraði leikinn með stífum varnarleik og baráttu, þó mikið hafi vantað upp á gæði sóknarleiksins. "Nei, þetta var ekki áferðafallegur leikur," sagði Margrét "en baráttan var í fyrirrúmi. Keflavík burstaði leikinn í framlagi 94 gegn 60 og er það virkilega ánægjuleg tölfræði enda eitthvað sem við höfum verið að stefna að því ef það er ekki barátta í liðinu þá vinnst ekki neitt."
Hvorugt liðið var með hreina yfirburði í þessum leik, þó Keflavík hafi spilað aðeins betur. Það var ekki fyrr en í 4. hluta sem vörnin small almennilega saman og lokaði á allar tilraunir Grindvíkinga. "Við höfum verið frekar slappar í að hnýta saman góða vörn og nota skotklukkuna okkur í hag í 4. leikhluta en nú tókst það. Sandra, Marín, Guðlaug og Melissa stóðu alveg fyrir sínu sem og Bríet sem stóð sig vel í vörn og sinnti hlutverki sínu þar með prýði."
Margrét hrósaði einnig ungu leikmönnum liðsins, Emelíu, Thelmu, Elfu og Irenu fyrir baráttu og enga uppgjöf. Einn leikmann vantaði þó tilfinnanlega í liðið en það er hin 16 ára Þóranna Kika Hodge-Carr sem tekur þátt í öllum aðgerðum liðsins á meðan hún er inni á vellinum hvort sem það er í vörn eða sókn. Þóranna snéri ökklann í leiknum gegn Snæfelli eftir 27 mínútur þar sem hún hafði skilað 4 stigum 4 fráköstum og 5 stoðsendingum. Þrátt fyrir að Þóranna hafi fengið grænt ljós á að taka þátt í leiknum segist Margrét hafa verið fegin að þurfa ekki að setja hana inn á í gærkvöldi og geta veitt henni frekari hvíld til að ná sér að fullu.
Keflavík tapaði 22 boltum í þessum leik gegn Grindavík og var það sjaldnast varnarleikur andstæðinganna sem olli því. Liðið hefur tapað rúmlega 19 boltum að meðaltali í leik það sem af er leiktíð og hlýtur Margrét vilja að draga úr því. "Jú klárlega. Þetta er þessi þáttur sem ég vil kalla að stýra klukku og setja upp en það hefur alveg vantað. Melissa þarf að gera betur þar en við lögðum mikla áherslu á það nú í lok þessa leiks. Ungar og villtar þessar elskur," segir Margrét brosandi.
"Stelpurnar settu allt í leikinn og gaman að sjá uppskeruna. Ég hlakka til að sjá þær í næsta leik og markmiðið er að halda uppi sama framlagi enda allt annað að sjá þær í kvöld.