19:03
{mosimage}
(Margrét Kara Sturludóttir)
Margrét Kara Sturludóttir gerði 11 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 4 fráköst í dag þegar Subwaybikarmeistarar KR tryggðu sig inn í undanúrslit Iceland Express deildar kvenna með 77-57 sigri á Grindavík í oddaleik liðanna. Karfan.is náði í skottið á Margréti Köru eftir leik en KR mætir Keflavík í undanúrslitum og þekkir Kara vel til Keflavíkurliðsins þar sem hún varð Íslandsmeistari með liðinu á síðustu leiktíð.
,,Við ætluðum okkur að klára þessa rimmu og það tókst og nú byrjum við bara að einbeita okkur að Keflvíkingum,“ sagði Margrét Kara sem viðurkenndi að Grindavík hefði læðst lítið eitt aftan að KR í einvíginu.
,,Þetta var hörkurimma, þær stríddu okkur vel með skemmtilegri vörn og hristu vel upp í þessu en við náðum að svara þessu í kvöld,“ sagði Kara en hvernig líst henni á að fara að mæta sínum gömlu liðsfélögum nú þegar Keflvíkingar hafa bætt við sig TaKeshu Watson?
,,Þær eru komnar með leikstjórnanda núna og hún kemur örugglega sterk inn en hvort það riðli eitthvað leik Keflavíkur skal ég ekki segja. Þær þekkja hana og hún þekkir þær svo Keflavík kemur sterkt til leiks og við erum að mæta allt öðru liði en þegar við mættum þeim síðast,“ sagði Kara sem telur að Vesturbæingar séu eins klárir í slaginn og þeir geti orðið.
,,Ef við höldum okkar einbeitingu og erum að spila okkar leik og stjórnum hlutunum eins og við viljum gera þá erum við mjög sterkar. Keflavík skora meira en t.d. 57 stig í leik en það er klárlega eitt af okkar markmiðum að halda þeim niðri í stigaskorinu,“ sagði Margrét Kara sem mun vafalítið gera Keflavík einhverja skráveifu fái hún tækifæri til þess en ljóst er að mögnuð rimma er framundan þar sem þessi lið léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra þar sem Keflavík sópaði KR 3-0 inn í sumarið.